Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 17:50:45 (2407)

1997-12-16 17:50:45# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[17:50]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Út af því hversu brýnt eða nauðsynlegt er að ná þessu máli fram núna þá gat ég þess áðan í andsvari við hv. þm. Hjörleif Guttormsson að ég sæi það fyrir mér að ef málið afgreiðist ekki nú fyrir áramót verði það varla í febrúar eða mars. Það væri auðvitað gott ef einhver trygging væri fyrir því að það yrði strax og þing kæmi saman. En hitt þekkjum við af reynslu að miklu líklegra er að það verði í besta falli í apríl eða sennilega ekki fyrr en í þinglok að málið yrði endanlega frágengið og þá er enn þá eftir langt ferli fyrir starfsleyfismálin eins og bæði kom fram í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og hv. þm. Steingrímur Sigfússon nefndi reyndar einnig þegar hann var að greina frá því hvernig starfsleyfisferlið færi fram. Að vísu fannst mér hann gefa því aðeins skemmri skírn í ræðu sinni áðan.

Það er þegar vitað að fyrir liggur umsókn um starfsleyfi nú fyrir þriðja ofn Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga og er til vinnslu hjá Hollustuvernd ríkisins. Ég skal ekki fullyrða um hversu brýnt það er, samkvæmt upplýsingum sem hafa komið fram í umræðum á þessum fundi að það kunni að vera að það sé ekki svo brýnt. Það er það sem hefur legið fyrir og svo þær upplýsingar að innan skamms þurfi að endurnýja starfsleyfi fyrir tvær þegar starfandi verksmiðjur en ég hygg að ekki sé um 1. eða 2. janúar að ræða í því efni, það sé síðar, en minni aftur á hvað þetta tekur langan tíma. Í fyrsta lagi að fá frumvarp lögfest á þingi og síðan að vinna úr því samkvæmt þessu ferli sem lögin gera ráð fyrir í margar vikur þar á eftir, (HG: 16 vikur.) 16 vikur minnir hv. þm. Hjörleifur Guttormsson okkur hér á.

Aðeins um það að hér sé verið að stytta leið og fela ráðherra nýtt vald sem hann hefur ekki haft þá vil ég minna á að starfsleyfi sem gefin eru út af ráðherra verður ekki vísað til úrskurðarnefndar. Það er ekki þannig. Úrskurðarnefndin hefur vísað þeim frá sér og sagt að það sé ekki hennar. Dómstólar geta auðvitað tekið á því (Forseti hringir.) ef ráðherra hefur misbeitt valdi sínu eða ekki farið rétt með. Hér er gert ráð fyrir því að þeir sem hafa athugasemdir við starfsleyfisútgáfu fram að færa geri það fyrst til Hollustuverndar og þær séu teknar fyrir þar og síðan geta þeir vísað (Forseti hringir.) þeim aftur til ráðherra og tekið þau stóru mál sem til ráðherra eiga að fara, en auðvitað hlýtur löggjafinn að ákveða hvaða mál hann vill láta afgreiða í heilbrigðisnefndum eða í Hollustuvernd ríkisins og hvaða mál hann vill láta fara til ráðherra. (Forseti hringir.) Þetta er sú regla sem hefur verið viðhöfð, á því byggist frv. bæði það eldra og hið nýja, að staðfesta það og fyrst og fremst að fá í þetta skýrar línur og skýrar leikreglur.