Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 20:47:36 (2411)

1997-12-16 20:47:36# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, SvG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[20:47]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs út af sjúkrahúsunum og get tekið undir hvert orð sem kom fram hjá hv. 12. þm. Reykn. um þau mál. Mig langar í tilefni af umræðunni að beina nokkrum spurningum til hv. formanns fjárln. Ég tel enga ástæðu til að kvelja hann neitt meira frekar en hv. 12. þm. Reykn., vil sýna honum mannúð í verki en ég vil nota tækifærið til að þakka honum fyrir hvað hann hefur verið ötull við að svara fyrir í þessum umræðum öllum, bæði um fjárlög og fjáraukalög, það er þakkarvert. Í umræðunni hefur hann komið fram sem talsmaður ríkisfjármálanna í salnum. Fjmrh. hefur varla látið sjá sig. Það er þakkarvert. Hann hefur ekkert hingað að gera meðan þingið er að fjalla um þetta, þingið er með málið núna. Svo kemur ráðherrann og framkvæmdir það og svo er það verk okkar að gagnrýna hann fyrir það hvernig hann framkvæmir hlutina þannig að þetta er skynsamleg verkaskipting og ég vil þakka hv. formanni fjárln. fyrir það. Ég vil hins vegar bæta við nokkrum spurningum í þennan sarp og reyndar fara fram á það við hann að hann ræði það við okkur.

Samkvæmt þeim tölum sem lágu fyrir þegar fjáraukalagafrv. kom til meðferðar 2. umr. varð niðurstaðan sú að það vantaði í svokallaða stóra spítala í Reykjavík, ef ég man rétt 1.500 millj. kr. samtals vegna árins 1998 í óbreyttan rekstur og vegna ársins 1997 og liðins tíma. Af þessum 1.500 millj. voru um 900 millj. vegna ársins 1998, þ.e. ef spítalarnir hafa algerlega óbreyttan rekstur árið 1998 þurfa þeir 900 millj. kr. meira. Í fjárlagafrv. eins og það lítur út núna er ekki gert ráð fyrir því að spítalarnir fái þessar 900 millj. Það er gert ráð fyrir því að þeir fái eitthvað minna en 300 millj. af því að í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir því að spítalarnir í landinu öllu fái 300 millj. til að taka á vandamálum sínum.

Ég vil þá byrja á því að spyrja hv. formann fjárln. að því hvernig hann sér fyrir sér að tekið verði á þessum vanda. Hver borgar vandann? Eiga spítalarnir að taka mark á fjárlögunum? Eiga spítalarnir að taka mark á fjárlögunum og segja við fólk: Ég loka sjúkrarúmum frá áramótum? Ég býst við því að hv. formaður fjárln. svari spurningunni neitandi eins og hæstv. heilbrrh. hefur gert, m.a. í útvarpsþætti í gær. Hæstv. heilbrrh. telur enga ástæðu til þess að spítalarnir taki mark á fjárlögunum.

Þá segir hæstv. heilbrrh. hins vegar að spítalarnir eigi að fara með mál sín fyrir stýrinefndina og gera grein fyrir þeim þar. Þar eigi að gera þetta allt sem búið er að segja allt of oft í umræðunni fyrir minn smekk að það eigi að skoða málin, skilgreina málin, fara yfir málin, athuga málin, líta á málin, meta málin og skoða þau síðan frá ýmsum hliðum. Spurningin er sem sagt þessi: Hvað mundi hv. formaður fjárln. gera ef hann væri forstjóri Sjúkrahúss Reykjavíkur núna um áramótin? Eða Ríkisspítalanna? Mundi hann taka mark á fjárlögunum eða mundi hann taka mark á heilbrrh. því að fjárlögin segja eitt og hæstv. heilbrrh. segir annað í þessum málum?

Ég spyr hv. formann fjárln. líka að því hvort hann rengir þessar tölur. Er hann sammála þessum tölum? Nú getur verið að hann hafi rök fyrir því og þá er ég að tala um tölurnar vegna ársins 1998. Það getur vel verið að hann hafi rök fyrir því að tölurnar séu rangar, þá vil ég hlusta á það. En ég hef engin rök heyrt gegn því að þessar tölur séu réttar eins og þær hafa komið frá spítölunum og frá heilbrrn. Ég sé ekki betur en heilbrrn. hafi skrifað upp á þessar tölur þannig að mér sýnist að málið liggi þannig að þetta séu hinar staðfestu tölur eða hefur hv. formaður fjárln. eitthvað við þær að athuga?

Í þriðja lagi spyr ég hv. formann fjárln. vegna ársins 1998: Ef spítalarnir skera ekki niður þjónustu, loka og segja upp fólki frá áramótum er engu að síður ljóst að þeir munu búa við halla, a.m.k. Sjúkrahús Reykjavíkur. Mér sýnist að halli á Sjúkrahúsi Reykjavíkur sé upp á 40 millj. kr. á mánuði á næsta ári. Ég sé ekki betur en það sé halli upp á rúmlega 1 millj. kr. á dag allt næsta ár eins og staðan er núna en dagarnir eru á næsta ári samkvæmt dagatali mínu, líklega hvorki meira né minna en 365 nema þeir væru 366, en hallinn er eitthvað í kringum 400 þannig að það er rúmlega milljón á dag sem hallinn er. Og þá spyr ég hv. formann fjárln.: Hver á að borga hallann á næsta ári? Ekki er hægt að hugsa sér að hann sé borgaður með því að skera niður rekstrarkostnað, þ.e. laun fólksins og lækka þau. Það verður að fylgja töxtum þar eins og annars staðar eða hver á að borga þennan halla á spítölunum í janúar, febrúar, mars? Hver á að borga vextina af þessum halla á næsta ári? Það er alveg nauðsynlegt að hv. formaður fjárln. svari því hvernig hann sér þessi mál fyrir sér. Ég er ekki að segja að hann leysi þau, ég er ekki að ætlast til þess. Ég get það ekki, það væri ósanngjarnt. En ég hlýt að geta gert kröfu til þess að hann hafi myndað sér skoðun á því hvernig spítalarnir munu taka á þessum málum. Ég vil fara fram á að hann svari þessum spurningum varðandi árið 1998.

Svo ætla ég að koma að árinu 1997 og fyrri árum og beina spurningum til formanns fjárln. áfram. Spurningar mínar eru þessar: Hver á að borga uppsafnaðan halla á spítölunum á árinu 1997, á liðnum tíma sem liggur fyrir, og er talinn vera upp á 500--600 millj. í þessum dæmum ef við tökum stóru sjúkrahúsin tvö. Hver á að borga hallann? Á að borga hann af fjárveitingu næsta árs? Það gæti verið sjónarmið. Þá þýðir það að niðurskurðurinn á næsta ári þarf að vera þeim mun meiri en menn höfðu áður talið að yrði að vera. Hvernig á að fara að því að greiða þennan halla upp? Hann liggur núna á fjárhag sjúkrahúsanna og væntanlega er hann einnig að taka á sig vexti eða vaxtabyrði. Hvernig ganga hlutirnir fyrir sig? Hvernig sér hv. formaður fjárln. fyrir sér að þetta gæti gerst? Ég held að við verðum aðeins að fara yfir það því að forusta fjárln. hlýtur að hafa skoðun á þessu, hún hlýtur að vita þetta. Hún getur ekki haft þessa hluti í lausu lofti. Það væri algert ábyrgðarleysi og ég saka forustu fjárln. ekki um ábyrgðarleysi, það geri ég ekki. Ég er viss um að forustumenn fjárln. hafa velt fyrir sér hvernig spítalarnir eiga að taka á þessum málum. Það hlýtur að vera.

Ég vil einnig spyrja í öðru lagi: Er eitthvað í tölum ársins 1997 og fortíðarinnar sem forusta fjárln. telur að sé rangt? Eru rangar upplýsingar vegna ársins 1997 eða fortíðarinnar að mati forustumanna fjárln. í þeim tölum sem hafa komið frá stóru spítölunum í Reykjavík eins og þeir eru kallaðir og sem heilbrrn. virðist hafa skrifað upp á? Ef eitthvað er rangt í þessum tölum vil ég heyra það. (Gripið fram í.) Ef það væri vildi ég gjarnan heyra það.

Í þriðja lagi varðandi árið 1997 og fortíðina ætla ég síðan að víkja að samkomulagi Sjúkrahúss Reykjavíkur, fjmrn. og heilbrrn. frá 12. sept. sl. og ég ætla að spyrja: Hvað er vanefnt í því samkomulagi af hálfu Sjúkrahúss Reykjavíkur? Er eitthvað í því samkomulagi sem er vanefnt af hálfu Sjúkrahúss Reykjavíkur? Mér er kunnugt um að í fyrsta lagi hefur verið staðið við þann þátt samkomulagsins sem fjallar um Kleifarveginn. Það er umdeilt mál eins og kom fram í atkvæðagreiðslu. Við höfum ýmsar skoðanir á því í þessum sal og erum ekki sammála því samkomulagi að öllu leyti, a.m.k. ekki ég, en það er engu að síður hluti samkomulagsins og það hefur verið efnt að mér skilst af hálfu viðkomandi aðila, þ.e. Sjúkrahúss Reykjavíkur.

Annað atriði sem átti að taka inn í samkomulagið snertir Grensásdeildina. Ef ég man rétt átti að flytja hluta af taugalækningum og það átti að flytja geðdeildina inn á Grensásdeildina. Flutningurinn átti að kosta 15 millj. kr. Mér er sagt að núna liggi fyrir, og ég geri ráð fyrir að fjárln. hljóti að vita það vegna þess að það er á almannavitorði, að kostnaðurinn við flutninginn er miklu meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Þess vegna mun það vera skoðun forustumanna Sjúkrahúss Reykjavíkur að það þurfi að endurskoða þann þátt samkomulagsins en ekki er hægt að halda því fram að þetta séu vanefndir af hálfu Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna þess að þetta snertir ekki liðinn tíma heldur væntanlega næsta ár. Ég spyr þá formann fjárln. hvort honum sé kunnugt um þetta vandamál.

Í þriðja lagi var gert ráð fyrir því í samkomulagi Sjúkrahúss Reykjavíkur frá 12. sept. sl. að það átti að samhæfa, hygg ég að það hafi verið, bæklunarlækningar á spítölunum í því skyni að stytta biðlista. Þar er staðan þannig að Sjúkrahús Reykjavíkur hefur lýst sig reiðubúið til þess að fara í þessa samninga en Ríkisspítalarnir hafa hins vegar ekki verið tilbúnir til þess. Deilur eru á milli stóru sjúkrahúsanna sem svo eru kölluð um þetta mál. Ég þekki ekki nákvæmlega hvernig það er en þessi þáttur er ekki kominn til framkvæmda.

Í fjórða lagi var í samningnum gert ráð fyrir því að Vífilsstaðir tækju við tilteknu nýju hlutverki á næsta ári, einkum að því er varðar aldraða og það er þáttur sem átti að geta skipt talsverðu máli. Ekki er ljóst hvernig það gengur en það er a.m.k. ekki hægt að segja að sá þáttur samkomulagsins hafi verið vanefndur vegna þess að hann átti fyrst og fremst að snúa að árinu 1998.

Vegna starfs míns sem þingmaður hef ég átt viðtöl við forustumenn Sjúkrahúss Reykjavíkur og heilbrrn. og ég hef reynt að skilja þetta mál. Hvað er það sem menn hafa vanefnt og vanrækt í þessu samkomulagi? Allir vilja standa við samkomulag, það er engin spurning um það. Hv. þm. Sturla Böðvarsson hefur aftur og aftur gefið það í skyn að menn ættu ekki að vera að segja mikið vegna þess að samkomulagið frá 12. sept. eigi að standa og menn eigi að standa við samkomulag, gefandi það í skyn að menn standi ekki við samkomulag, en ég held að það sé ekki sanngjarnt að setja málið þannig upp. Ég held að veruleikinn sé sá að menn hafi gert það sem hægt er til þess en ekki komist miklu lengra. Ef ég fæ nýjar upplýsingar um það í umræðunni frá hv. formanni fjárln. eða varaformanni kemur það í ljós. En ég vil með öðrum orðum ítreka þá spurningu og spyrja hv. formann fjárln. hvað er það í samkomulaginu frá 12. sept. sem er vanefnt þannig að það valdi þessari háu tölu, hafi áhrif á þessa gríðarlegu hallatölu vegna liðins tíma, ársins í ár og næsta árs upp á 1.500 millj. kr. Hvað er það sem verið hefur vanefnt?

Að lokum vil ég segja það, herra forseti, að ég hef ýmislegt að athuga við þessa svokölluðu pottastefnu. Ég kann ekki að meta þessa uppsetningu mála. Ég sagði það í atkvæðaskýringu um daginn að mér fyndist að þetta væri vantraust á heilbrrn. og ég sagði þá að ég væri ekki tilbúinn til að skrifa upp á það. Ég segi það alveg eins og er, ég held að staðan sé ekki þannig að það væri það besta sem við gerðum fyrir heilbrigðismálin á Íslandi að samþykkja í kvöld vantraust á heilbrrh. Ég held að málin liggi ekki þannig. Ég held að vandinn sé miklu alvarlegri en svo að menn geti leyft sér að taka á málum með þeim hætti. Ég held að það eigi á Alþingi þvert á móti að leita samstöðu þvert yfir flokka og stjórn og stjórnarandstöðu um að leysa þessi mál vegna þess að þau eru í bullandi erfiðri stöðu. En út af þessum pottum ætla ég bara að spyrja: Eftir hvaða reglum á að fara við að úthluta peningum úr þessum pottum? Ég heyri að varaformaður fjárln. er aftur og aftur að segja það bæði í þessum ræðustól og í fjölmiðlum að fjárln. ætli að fara að skipta sér af því hvernig verður úthlutað úr þessum pottum. Nú, er þetta þá fjárveitingamál? Eða er það stýrinefndin sem á að ráða þessu? Hver á að ráða þessu? Eftir hvaða faglegu sjónarmiðum ætlar fjárln. að fara? Örugglega einhverjum, en eftir hvaða? Hvað geta forustumenn sjúkrahúsanna gert sér vonir um að fá út úr pottunum? Ég tel reyndar að þetta sé í rauninni það lítið að það skipti auðvitað einhverju máli en allt of litlu máli. Þetta er örugglega allt of lítið.

Í samkomulaginu, sem var gert 12. sept., man ég það ekki rétt að það hafi verið í því 500--600 millj. kr. í peningum? Ég ætla að spá því núna hér úr þessum stól að í ágúst og 12. sept. 1998 verði gert nýtt samkomulag um 600 millj. kr. eða svo vegna þess að þetta stenst ekki. Ég tel að þetta sé markleysa eins og það er. Og ef hv. talsmenn fjárln. geta sýnt mér fram á annað þá skal ég af auðmýkt meðtaka það. En ég hef lagt fyrir þá nokkrar spurningar og vona að þeir geti svarað þeim og vilji svara þeim.