Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:30:22 (2419)

1997-12-16 21:30:22# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:30]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Mig minnir að það hafi verið rússneskur stjórnmálamaður sem skammaði Albani þegar hann ætlaði að skamma Kínverja. Ég er satt að segja aldeilis hissa á þessari aðför sem hv. 9. þm. Reykn. gerir að fyrrv. formanni Alþfl. Hann samdi um sendiráðið í Berlín við Norðurlöndin sem ég er alveg sammála í rauninni og það var ekki hægt annað en taka það skref sem mun kosta verulega fjármuni á næstu árum. (GÁS: 350 millj.)

Fyrrv. formaður Alþfl. treysti sér ekki til að fara í endurnýjun á lóðasamningnum í London fyrir nokkrum árum þó að þá hefði vafalaust verið betri samningsstaða. Honum óaði þessi kostnaður en ekki var undan því vikist að fara í þetta. Það vill nú svo til að fyrrv. formaður Alþfl. er að fara til að búa í sendiherrabústðanum í Washington og ég trúi ekki að hv. 9. þm. Reykn. vilji að bústaðurinn hrynji yfir hann. Hann kemur þá a.m.k. ekki aftur ef hann hrynur. En ég vil ekki hv. fyrrv. formanni Alþfl. svo illt að þessi bústaður hrynji yfir hann.

En að öllu gamni slepptu eru þetta fjárfestingar sem verður ekki komist hjá. Það er búið að skoða það og við höfum skoðað það í fjárln. að þetta er skynsamleg leið í stöðunni en auðvitað eru þetta miklir peningar. Ég sagði það við fyrri umræðu fjáraukalaga að því fylgir mikill kostnaður að setja niður sendiráð í miðborgum erlendra stórborga og því miður verða mikil útgjöld af þessu á næstu árum. (Gripið fram í: Hefur fjárln. farið á vettvang?)