Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:32:40 (2420)

1997-12-16 21:32:40# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Alveg voru þetta dæmigerð viðbrögð við efnislegum spurningum og athugasemdum. Hvernig blandast hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson í þessa umræðu og þessar fyrirspurnir mínar? Ég gat um það réttilega að hvorki vildi ég að húsið hryndi á hann né nokkurn annan. Ekki vildi ég að húsnæðið í Lundúnum hryndi á núverandi sendiherra né nokkurn annan. Ég gat þess líka að ég hefði verið sammála því á sínum tíma, hæstv. forseti, að ráðast í þessa fjárfestingu í Berlín því það var annaðhvort að hrökkva eða stökkva á þeim tíma. En fyrirspurn minni um það hvort og hvernig utanrrn. og hv. fjárln. á síðari tímum ætlar sér að kaupa eða byggja yfir væntanlega sendiherra hús sem að heldur í Helsinki svaraði hv. þm. engu né heldur hinu hvort fjárln. hefði þá ekki gert á því ítarlega og langvarandi úttekt hvar þörfin brynni næst eða hvort við megum búast við því að á sama tíma að ári átti menn sig skyndilega á því að eitthvað sé að hrynja í Brussel eða eitthvað sé að hruni komið í Stokkhólmi eða einhvers staðar annars staðar. Er eitthvað fleira að hrynja, virðulegi forseti, þar sem við þurfum að grípa í taumana?

Ég vil bara spyrja um þetta. Það væri betur ef þjóðin hlægi nú með hv. þm. Jóni Kristjánssyni yfir þessum 700 millj. kr. sem hann af gæsku sinni ætlar að slaka út núna á þessu ári og hinu næsta í fjárfestingar fyrir ágæta sendimenn íslenska ríkisins á erlendri grundu. Það verða væntanlega margir viðhlæjendur.