Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:34:37 (2421)

1997-12-16 21:34:37# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:34]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði ekkert að víkja mér undan því að svara fyrir Helsinki því að ég átti eftir annað andsvar. Það hafa ekki komið á okkar borð áform um húsbyggingar þar eða húsakaup. Hins vegar þarf að skipta um sendiherrabústað í París. Þar á að selja eignir og skipta um bústað þar sem hefur verið mjög dýr og óhentugur. Það er fram undan þar. Önnur útgjaldatilefni hafa ekki komið á okkar borð varðandi þessi mál en auðvitað reynum við að fylgjast með því eftir föngum.

Sendiherrabústaðir á erlendri grund kalla á viðhald. Þarna á eignamyndun sér stað og það er ekki vitlegt, ef upp kynni að koma að menn skipti um húsnæði í sendiráðum eða fyrir sendiherra, að láta þessar eignir drabbast niður. Þær verða þá einskis virði.

Sendiráðið í London er ekki að hruni komið. Það er misskilningur ef hv. 9. þm. Reykn. hefur haft það eftir mér. Það er lóðasamningurinn sem er að renna út þar. Það er það mál sem er aðkallandi í þessu. Auðvitað eru þetta alvarleg mál. Þetta eru útgjaldafrek mál. En ekki verður vikist undan því á einhverjum tíma að taka á þessum málum og auðvitað má alltaf deila um það hvenær er rétti tíminn til þess. En ég tel að ekki verði undan þessu vikist nú.