Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:36:58 (2422)

1997-12-16 21:36:58# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:36]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat þetta sem ég óttaðist. Það á að opna sendiráðið í Stokkhólmi. En menn hafa engar hugmyndir um hvern það eigi að vista til lengri framtíðar. Það eru engar ákvarðanir sem liggja fyrir um fjárfestingar þar fyrir sendiherra. Skildi ég hv. þm. ekki rétt? (Gripið fram í: Stokkhólmi?) (Gripið fram í: Helsinki.) Helsinki vildi ég sagt hafa. Það kemur bara einhvern tíma þegar menn eru tilbúnir til slíkrar ákvarðanatöku. Menn horfa því ekkert fram fyrir sig. Þess vegna spurði ég að gefnu tilefni hvernig landið lægi í heild og breidd í þessum stóru eignum okkar á erlendri grundu.

Virðulegi forseti. Það má enginn, ekki nokkur maður, skilja orð mín svo að ég ætli að fara hér í --- það er ágætt að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hefur gaman af þessari umræðu --- að gera út á öfundsýki eða gera út á það að almenningur sjái ofsjónum yfir því að vel sé að sendimönnum okkar búið. En það er algert ábyrgðarleysi ef hv. þingmenn láta mata sig einhliða á upplýsingum sem þeir ætla ekki raunverulega að þrautreyna og ganga úr skugga um. Ég hef aflað mér upplýsinga um ýmis mál af þessum toga og ég fullyrði að hér er bara einfaldlega mjög vel í lagt í þeim dæmum sem við erum að ræða um.

Virðulegi forseti. Það er rétt að skoða þessi mál eilítið í samhengi. Við höfum rætt það til að mynda hér á hinu háa Alþingi að illa sé búið að þingmönnum þjóðarinnar. Þingið greiðir í leigu á ári hverju 15 millj. kr. og finnst mönnum alveg nóg um. Það hefur staðið yfir langvarandi umræða um það að byggja myndarlega yfir þingið. Það hefur staðið á fjármunum í því sambandi þannig að ég bið menn að hugleiða aðeins forgangsröðun í þessu sambandi og velta því eilítið fyrir sér. En kannski finnst mönnum það bara hlægilegt, virðulegi forseti. Kannski finnst hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur það mjög hlægilegt að ekki séu til fjármunir til slíkra verka. Eða við þyrftum að bíða í 20 ár eftir því að byggja yfir sjúk börn. Það er kannski líka rosalega hlægilegt. En það virðast vera til peningar og mikill áhugi og menn fljótir til verka hér þegar kallið kemur sums staðar. Það er þetta held ég, virðulegi forseti, sem menn ættu að íhuga örlítið og sjá hver hlær þá.