Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:54:16 (2428)

1997-12-16 21:54:16# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:54]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hluta sjútvn. á þskj. 540. Það vakti athygli mína þegar hv. þm. Árni Ragnar Árnason flutti meirihlutaálit sitt að svo virðist sem meiri hluti sé í nefndinni fyrir minnihlutaálitinu. Það telst nokkuð sérstakt.

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti minni hlutans en frv. leggur til breytingar frá þeim reglum sem nú gilda um endurnýjunarrétt fiskiskipa. Í fyrsta lagi er lagt til að öll skip sem leyfi hafa til veiða með aflamarki megi stækka upp að vissu marki við endurnýjun og breytingu án þess að á móti þurfi að koma úrelding samsvarandi fjölda rúmmetra. Það er að meginstofni til byggt á reglum sem giltu um stækkun skipa til ársins 1991.

Í öðru lagi er í frv. lagt til að afnumin verði sérstök undanþága skipa sem skráð voru fyrir 1. janúar 1986 frá endurnýjunarreglum með 14 mánaða aðlögunartíma. Þrátt fyrir að reglurnar séu að nokkru leyti rýmkaðar með frv. og minni hlutinn telji það vera til bóta, þá er mat hans að áfram verði við lýði verulegar hindranir á möguleikum útgerðarmanna til að endurnýja og breyta skipum sínum.

Minni hlutinn lýsir þeirri skoðun sinni að veiðitakmörkun aflamarkskerfisins ásamt öðrum ráðstöfunum, svæðafriðunum, lokunum og reglum um veiðarfæri, sé nægjanleg til þess að stjórna veiðum í íslensku efnahagslögsögunni. Engin rök séu fyrir því að stjórnvöld reki samhliða annað kerfi sem kveður á um að útgerðarmaður sem vill stækka skip sitt með endurnýjun eða breytingu þurfi að fjárfesta í öðrum skipum sem nemur þeim rúmmetrum sem breyta skal. Minni hlutinn metur það svo að ekki sé þörf á því að stjórnvöld reki tvö dýr stýri- eða takmörkunarkerfi til að ná markmiðum laga um stjórn fiskveiða.

Það er ekki ofsögum sagt, virðulegi forseti, að hið tvöfalda stýrikerfi minnir mann nokkuð á þá ofstjórnun sem landbúnaðurinn hefur orðið að búa við um langt skeið. Það er ekki að ástæðulausu að minni hlutinn óttast að stjórn fiskveiða fari að ganga út á málamiðlanir, niðurstöður einhverra tækninefnda og hætt verði við að niðurstaðan verði ofstjórn, öllum sem í greininni starfa til ama og leiðinda.

Minni hlutinn telur stjórnendur í sjávarútvegi best til þess fallna að meta hvernig og með hve stórum skipum hentugast sé að sækja þann afla sem leyft er að veiða. Þeir bera ábyrgð á fjárfestingum og ákvörðunum um reksturinn og eðlilegt er að sama gildi um ákvarðanir um stærð og gerð skipastóls. Afnám núverandi endurnýjunarregla mun greiða fyrir endurnýjun flotans með nýrri, öruggari og fullkomnari skipun þar sem aðstaða til meðhöndlunar hráefnis og vöruvöndunar verður betri en nú. Fjárfestingargirðingar í því skyni að takmarka stækkun flotans standa í vegi fyrir framþróun hans hvað varðar bættan aðbúnað og öryggi sjómanna. Enn fremur vill minni hlutinn vekja athygli á að hindranir á við núverandi endurnýjunarreglur geta leitt til að smám saman tapist úr landinu verkþekking í skipasmíðaiðnaði.

Þeir sem vilja óbreyttar eða lítið breyttar reglur eins og ríkisstjórnin og meiri hluti hennar færa einkum þau rök fyrir máli sínu að verði fallið frá þeirri stefnu að halda í við stærð veiðiflotans innan landhelginnar geti afkastageta hans aukist umfram afrakstursgetu fiskstofnanna. Það geti á síðari stigum leitt til þrýstings á ákvörðunum um aukinn heildarafla. Það verður að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að þeir sem setja þessi rök fram hafi ekki mikla trú stjórn fiskveiða hér á landi og menn hyggjast búa við í framtíðinni.

Með vísan til framanritaðs telur minni hlutinn að sú rýmkun sem lögð er til í frumvarpinu sé til bóta en að ekki sé nægjanlega langt gengið. Minni hlutinn mun styðja þau ákvæði sem hann telur að horfi til framfara en vekur athygli á því að ekki er að finna neina leiðsögn í frumvarpinu um framtíðaráform stjórnvalda um endurnýjunarreglurnar. Þó vill minni hlutinn vekja athygli á að þrátt fyrir að ekki sé að finna neina framtíðarstefnu núverandi stjórnvalda í frumvarpinu hafði sjávarútvegsráðherra orð á því við 1. umræðu málsins ,,að í fyllingu tímans verði unnt að afnema þessar reglur``.

Það er með vísan til þessa, virðulegi forseti, sem við óttumst það mjög að menn hafi takmarkaða trú á þeirri reglusetningu sem hér er til umræðu. Hægt væri að rifja upp þá sögu en þetta er árviss viðburður ef ekki tvisvar á ári að menn leggja til breyttar reglur við stjórn fiskveiða. Minni hlutinn telur að ráðherrann hafi verið að ýja að því að þeim reglum sem ætlunin er að lögfesta væri aðeins ætlað að gilda um skamma hríð. Með orðavali sínu kann ráðherra nú þegar hafa valdið verulegri óvissu sem haft geti ófyrirséðar afleiðingar. Þeirri óvissu telur minni hlutinn nauðsynlegt að eyða. Í því skyni flytur minni hlutinn brtt. á þskj. 541 þar sem lagt er til að þær reglur sem hér er ætlunin að lögfesta falli úr gildi 1. janúar 2001. Þar með væri þeirri óvissu sem við teljum að hæstv. sjútvrh. hafi vakið upp með orðum sínum við 1. umr. eytt. Ef það er einfaldlega lögfest að þessar reglur skuli falla úr gildi 1. janúar 2001, þá geta menn gert áætlanir sínar í samræmi við það og þurfa ekki að vaða reyk hvað framtíðina varðar við stjórn fiskveiða.

Eins og að framan er rakið er minni hlutinn þeirrar skoðunar að afnema beri núverandi reglur um endurnýjun og breytingu fiskiskipa. Tvöfalt kerfi við stjórn fiskveiða sé ekki nauðsynlegt til að ná þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett sér í því efni hér við land. Í ljósi þess að þessar reglur hafa gilt um nokkurt skeið, og útgerðarmenn hafa smám saman lagað sig að þeim og lagt í verulegan kostnað til þess að uppfylla skilyrðin, telur minni hlutinn eðlilegt að greinin fái nokkurn aðlögunartíma til að draga úr þeim mikla aðstöðumun sem ella mundi skapast milli einstakra útgerða. Enn fremur telur minni hlutinn nauðsynlegt að stjórnvöld fái aðlögunartíma til þess að meta hvort nauðsynlegt geti verið að stýra að einhverju leyti þróun flotans með beinum eða óbeinum aðferðum og e.t.v. takmarka stækkun einstakra tegunda skipa, t.d. verksmiðjuskipa, meðal annars með vísan til umhverfis- og atvinnusjónarmiða. Minni hlutinn telur þá rýmkun á reglum um endurnýjum fiskiskipa sem frumvarpið felur í sér til bóta en leggur jafnframt til að slíkar takmarkanir falli endanlega niður að þremur árum liðnum og flytur um það sérstaka breytingartillögu.

Undir þetta nefndarálit rita ásamt mér hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Sighvatur Björgvinsson.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, vekja athygli á hinu sama og í upphafi máls míns að svo virðist hátta til að það sé meiri hluti í þinginu fyrir þeirri leið sem minni hlutinn leggur hér til, a.m.k. í sjútvn. Ég tel orðið tímabært að þingið sýni þann manndóm að taka sjálfstæða ákvörðun um það hvernig það vilji haga stjórn fiskveiða en sættast ekki á tillögur nefnda úti í bæ sem eru bornar hér upp og við hv. þingmenn nánast beðnir um að stimpla þær. Ég tel tímabært, virðulegi forseti, að þingmenn á hinu háa Alþingi Íslendinga sýni þann manndóm að taka sjálfstæða ákvörðun, fylgja sannfæringu sinni og leggja niður þetta tvöfalda stjórnkerfi sem er gersamlega ónauðsynlegt til að ná þeim markmiðum sem ætlunin er að ná með stjórn fiskveiða.