Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:18:49 (2431)

1997-12-16 22:18:49# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, GHall
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:18]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég skrifaði upp á nefndarálit meiri hluta nefndar með fyrirvara og ætla ég að gera grein fyrir því hvers vegna í fáum orðum. Það líður á tímann þannig að ég ætla ekki að eyða mjög löngum tíma til þess en hins vegar þykir mér þó rétt að koma inn á nokkur atriði sem skipta verulegu máli í sambandi við endurnýjun fiskiskipastólsins.

Í fyrsta lagi hafa um langt árabil verið takmarkanir á stærð fiskiskipa vegna laga um stjórn fiskveiða. Þessar reglur hafa allar haft eitt og sama meginmarkmiðið, að draga úr veiðum úr íslenskum fiskstofnum. Settar hafa verið reglur um svokölluð veiðihólf og í þessum hólfum mátti aðeins veiða tiltekin stærð af skipum í brúttórúmlestum talið, tiltekin lengd af skipum, ákveðið hámarksvélarafl og nú síðast ber að reikna út aflvísi fyrir togveiðiskip.

Við skulum gera ráð fyrir því að þegar farið verður að reikna út aflvísi fyrir skipin verði gerðar breytingar á skipum í rekstri í þá átt að fá hagstæðan aflvísi. Ný skip verða þá hönnuð með tilliti til þessa. Þetta þýðir að í mörgum tilfellum er verið að smíða skip sem eru ekki eins umhverfisvæn og þau gætu verið ef aflvísirinn væri ekki.

Almennt má segja um allar takmarkanir á stærð skipa bæði hvað varðar lengd, brúttórúmlestir, stærð vélarafls o.s.frv. að þetta leiði af sér breytingar á skipum í rekstri og smíði á nýjum inn í þessar reglur. Helstu afleiðingar af þessu verða að öryggismál verða í þessu samhengi æðioft afgangsstærð þegar skipi er breytt eða nýtt smíðað. Takmarkað pláss fyrir björgunar- og öryggisbúnað, vistarverur áhafnar þröngar og vinnusvæði sömuleiðis, yfirvigt á skipum vegna veiðarfæra og búnaðar til veiða, vandkvæðum háð að uppfylla reglur um stöðugleika. Ljóst virðist vera að þegar þessar reglur eru búnar til hafa framangreind sjónarmið ekki verið til umfjöllunar.

Virðulegi forseti. Með tilliti til þess sem hér kemur fram í þskj. 1 frá þeirri ágætu nefnd sem vann að frv. kemur m.a. fram það sem ég gat hér um síðast. Þar segir nefndin m.a., með leyfi forseta:

,,Enn fremur skyldi starfshópurinn leggja mat á kosti þess og galla að heimila almennt ákveðna stækkun skipa við endurnýjun án þess að sami rúmmetrafjöldi verði tekinn úr rekstri, þar á meðal hugsanleg áhrif á umgengni við nytjastofna sjávar og þróun fiskvinnslu.``

Virðulegi forseti. Mér finnst eins og þarna komi fram það sem ég var hér að segja rétt áðan um þann þátt sem snýr að almennri velferð sjómannsins um borð í skipi sem hafi nokkuð setið á hakanum þegar menn voru að huga að þessu máli. En ef þessi liður er skoðaður nánar þá gera reglur um björgun og öryggisbúnað m.a. ráð fyrir því að hann sé ávallt aðgengilegur og vel fyrir komið þannig að áhöfn geti fljótt og örugglega gripið til hans ef þörf er á. Í mörgum tilfellum eru þessi vandræði ekki til staðar á stærri skipum.

Reglur um vistarverur áhafnar eru lágmarkskröfur. Það er pláss í klefum, borð- og sætapláss, hávaðamörk o.s.frv. Sömuleiðis eru reglur um vinnusvæði á skipum. Á frystitogurum eru víða í lágmarki pláss til vinnu og þröngur vinnustaður eykur enn frekar þreytu þeirra sem þar vinna sem á erfiðum og hættulegum vinnustað sem aftur eykur slysahættu. Ljóst er sé vinnuaðstaðan um borð í frystitogurum og í frystihúsum í landi sem afkasta jafnmiklu af magni á klukkustund borin saman er aðstaða í landi allt önnur, nóg pláss, minni hávaði og það sem skiptir ekki hvað minnstu máli að menn hafa fast land undir fótum.

Hvað varðar vistarverur áhafnar bæði til hvíldar og tómstundarstarfa er það krafa í dag að sú aðstaða sé til staðar því að í löngum útiverum gefst stundum tími til að sinna öðru en að vinna og hvíla sig. Úr þessu mætti bæta nokkuð með stærra skipi. Kunnugt er að þegar skip er búið til veiða er eftir því leitast að hafa allan búnað sem til veiðanna þarf sem bestan svo að unnt sé að ná þeim árangri sem að er stefnt og rekstur skipsins verði hagkvæmur. Þetta gerist oft á þann hátt að settur er upp búnaður svo sem gálgar, togspil og fleira um borð sem í raun og veru er of stór sem þýðir að þau bera þetta varla því að stöðugleiki er of lítill. Þessu er mætt með því að setja aukna kjölfestu í skipin og með þeim hætti að tryggja að stöðugleikareglum sé fullnægt. Þetta þýðir m.a. að skipið verður óeðlilega þungt, hætta á sveiflukröftum í skipinu sem þýðir meiri og sneggri hreyfingar sem einnig leiðir til aukinnar slysatíðni. Afleiðing af þessu er að áhöfnin þreytist meira en ella en ef hönnun og notkun skipsins væri eðlileg.

Í öðru lagi þarf meira vélarafl til að knýja skipið áfram sem hefur í för með sér verulega aukinn útgerðarkostnað. Nú þegar athygli manna beinist að umhverfismálum, þ.e. loftmengun frá skipum, er nauðsynlegt að gefa þessum þætti rétt vægi þegar reglur eru settar um endurnýjun fiskiskipa, einnig þegar lög um stjórn fiskveiða eru samin.

Helstu niðurstöður eru þær að allar takmarkanir á stærðum skipa séu afar óheppileg ráðstöfun sem þýðir kostnaðarauka á tonn á veiddan fisk og fullvinnslu, að auki lakari aðbúnað áhafnar og slakari aðgang að öryggisbúnaði. Endurnýjun fiskiskipastólsins er það mikið hagsmunamál fyrir þjóðina að óeðlilegt er að settar séu hindranir af hálfu löggjafans. Þjóðfélagið hefur breyst og kröfur tímans í dag eru aðrar og meiri en þær voru t.d. fyrir 20 eða 30 árum.

Virðulegi forseti. Ég hef undir höndum teikningu af hefðbundnu síldveiðiskipi sem byggt var á árinu 1968. Búið er að breyta þessu skipi sjö sinnum. Það hefur lengst úr 36 metrum í 55 metra. Það var í brúttórúmlestum 270 tonn en er nú orðið 500 tonn. Þetta skip er talið gamalt en þó eru ekki eftir af þessu skipi frá 1968 nema 5% í byrðingnum. Þetta er eitt af þeim skipum sem talin eru frá 1968 vegna þess að í lögum um skráningu skipa segir að byggingartími skips miðist við þegar kjölurinn er lagður og þegar lesin er skilgreiningin á aldri skipa þá er miðað við ártalið þegar kjölurinn er lagður.

Virðulegi forseti. Í tímaritinu Ægi birtist ekki fyrir löngu bréf sem er ritað af Bárði Hafsteinssyni sem vinnur hjá Skipatækni. Hann tekur dæmi um útgerðarmann á nótaskipi sem ber um 750 tonn af loðnu. Skipið var byggt í Noregi 1966 og er því orðið 30 ára. Skipið hefur verið lengt, byggt yfir það, skipt um brú og aðalvél. Samt sem áður er stærsti hluti skrokksins sá upphaflegi og vistarverur áhafnar meira og minna þær upphaflegu. Með fulla hleðslu er fríborð skipsins um 30 sm miðskips mælt frá efra þilfari og þar af leiðandi álag á upphaflega hluta skrokksins langt yfir upphaflegum hönnunarforsendum.

Nú hefur þessi útgerðarmaður áhuga á því að endurnýja skipið með því að byggja nýtt sem ber sama magn af loðnu. Hann ætlar að byggja nútímaskip þar sem tekið er tillit til betri meðferðar aflans, meira öryggis skips og áhafnar og betri aðbúnað áhafnar en tíðkaðist fyrir 30 árum. Útgerðarmaður fer til tæknilegs ráðgjafa síns og leggur dæmið fyrir hann. Mismunur á rúmtölu skipanna er 1.583 rúmmetrar og þá er gefið dæmi upp að verð á rúmmetra sé um 90 þús. kr. Útgerðarmaðurinn þarf að kaupa rúmmetra fyrir 142 millj. kr. til þess að fá leyfi yfirvalda til þess að endurnýja 30 ára gamalt skip sitt. Þetta má kalla 22% nýsköpunarskatt á smíðaverð skipsins aðeins fyrir það að koma með verðmætari afla að landi, auka öryggi skips og áhafnar og auka möguleika sína á veiðum á vannýttum og ókvótabundnum fisktegundum og þar með auka tekjur þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Með þeim fyrirvara sem ég setti við nál. meiri hluta sjútvn. tel ég rétt að greiða ekki atkvæði gegn þessu frv. því að það er þó heldur spor fram á við og þá einkum með það í huga að stjórnvöld hafi umþóttunartíma til þess að skoða málið með það í huga að nauðsynlegt er að draga úr mengun fiskiskipaflotans og stuðla að fækkun slysa á sjómönnum. Það þarf að skoða það mál vel áður en þessar reglur verði endanlega afnumdar. En ég hef trú á því að ekki líði langur tími þar til það verður og hef þá sömu skoðun og fleiri ræðumenn sem hafa talað í kvöld um frv.