Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:47:09 (2438)

1997-12-16 22:47:09# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:47]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson með fyrirvara segir að skoðanaskiptin sem hér hafa farið fram séu óeðlileg. (GHall: Já.) Ég gerði grein fyrir því í upphafi minnar ræðu að tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs og spurðist fyrir um málið var að varaformaður sjútvn. og talsmaður meiri hlutans komst þannig að orði í upphafsorðum sínum að a.m.k. einn þeirra þingmanna sem standa að nefndarálitinu gerðu það með fyrirvara. Ég sá hins vegar að aðeins einn hafði ritað fyrirvara við nafnið sitt. Því spurði ég frsm. meiri hlutans hvað þessi orð þýddu, hvort fleiri væru með fyrirvara og skýrði frá því að það kæmi mér ekki á óvart miðað við þær umræður sem hefðu átt sér stað í nefndinni. Og frsm. meiri hluta sjútvn. staðfesti það því að hann skýrði frá því sjálfur að ýmsir aðrir þingmenn sem standa að nefndarálitinu hefðu verið þeirrar skoðunar og væru það eflaust enn án þess að hann tæki það þó sérstaklega fram, að þessar reglur ættu ekki að eiga sér langa lífdaga. Ég bið því hv. þm. með fyrirvarann að gera sér grein fyrir því hvernig málflutningurinn er hér á Alþingi og þetta er í fullu samræmi við það.

Hann spurði okkur stjórnarandstæðinga hvernig stæði á því að við hefðum lagt fram tillöguna eins og við gerum. Svarið við því er mjög einfalt. Í okkar hópi eru sumir þeirrar skoðunar að það beri að afnema þessar endurnýjunarreglur strax. Aðrir eru þeirrar skoðunar að það beri að gera það í áföngum. En við komumst að niðurstöðu sem við erum sammála um til þess að eyða óvissunni og niðurstaða okkar er þessi. En niðurstaða meirihlutamanna sem eru okkur sammála er engin. Þeir komust ekki að neinni niðurstöðu annarri en þeirri að láta útvegsmenn lifa með óvissunni, láta þá eyða tugum milljóna í útgjöld að óþörfu.