Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:52:06 (2441)

1997-12-16 22:52:06# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:52]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar kvótakerfið var sett fyrst á 1984 þá voru settar reglur um endurnýjun fiskiskipa. Reglan var 1:0,7. Sú regla gilti alveg til 1991. Árið 1991 tók ný ríkisstjórn við. Þá tók hæstv. ráðherra Þorsteinn Pálsson við sjútvrn. og þá breytti hann fljótlega þessum reglum úr 1:0,7 í 1:1.

Í þessari sömu ríkisstjórn sat þá hv. 4. þm. Vestf. Sighvatur Björgvinsson. Hann sat þar í fjögur ár (Gripið fram í: Og leiddist ekki.) og leiddist ekki neitt. Það sem verið er að gera nú er einmitt það að færa endurnýjunarregluna til hins fyrra forms auk þess sem aðeins er líka hleypt að minni bátum með smástækkun sem fá að koma þar inn. Það er verið að breyta til fyrra forms. Nú er þingmanninum mjög mikið niðri fyrir því þetta sé alveg voðalegt. Það er verið að breyta reglunni eins og hún var áður og honum finnst það alveg skelfilegt og fjargviðrast hér í stólnum eins og stórkostleg vandræði séu á ferðinni.

Það er vitað mál að allir þeir sem reyna að stjórna fiskveiðum sínum hafa það að meginmarkmiði að fá samræmi milli afrakstursgetu fiskstofna og afkastagetu flotans og þess vegna var þessi regla í upphafi sett 1984. Og það er rangt sem menn halda fram að þarna hafi nokkurn tíma verið einn einasti skattur á sjávarútveginum. Menn eru að borga hverjir öðrum. Menn eru að hjálpa til við það að einn geti komist út úr útgerðinni og borgar þá hver öðrum. Sjávarútvegurinn hefur ekki í einu né neinu fórnað þarna nokkru vegna þess að menn hafa verið að tryggja sér lífsrými, tryggja það að reglan geti gengið, tryggja það að aflaheimildirnar verði í sem mestu samræmi við afkastagetuna.