Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 23:25:04 (2452)

1997-12-16 23:25:04# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, Frsm. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[23:25]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vestf. brást ekki vonum mínum frekar en fyrri daginn. Þegar hann kemur hér í ræðustól, þá yfirleitt lifnar örlítið yfir þingsalnum og ég held að hann hafi staðið undir þeim væntingum nú eins og oft áður. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur oft flutt ágætar ræður í þingsal og ekki aðeins ég haft gaman af heldur margir aðrir.

Það sem ég vildi eiginlega beina til hv. þm. er að hann hefur jafnan talað um þá þjóðfélagstilraun sem var gerð í Sovétríkjunum og víðar í Austur-Evrópu og farið um hana þeim orðum að það hafi verið tilraun sem ekki hafi verið ástæða til þess að ráðast í. Hún hafi misheppnast og dómur sögunnar í þeim efnum væri löngu fallinn. Ég held kannski að undir þetta megi taka með hv. þm. Hann hefur m.a. rökstutt mál sitt með því að ástæðan fyrir því að svona fór er sú gríðarlega miðstýringarárátta sem þar var við lýði. Hv. þm. hefur talað um það í flestum ræðum sínum að frjáls viðskipti, frjáls markaður sé það sem eigi að ráða ferðinni í þessum efnum. Það er einmitt vegna þessa sem ég undrast dálítið að hv. þm. er nánast sá eini sem hefur tekið til máls í kvöld sem hefur tekið undir þessar reglur sem hér er ætlunin að lögfesta án fyrirvara, nánast sá eini því að þær reglur sem við erum að ræða hér eru stjórnvaldsreglur um fjárfestingargirðingar til endurnýjunar fiskiskipa. Það eru þessar reglur, þessar girðingar sem gera það að verkum að einhverjir meintir rúmmetrar fá verðgildi, þ.e. það eru stjórnvaldsreglur sem gera það að verkum að eitthvað fær verðgildi. Ekki það að svo hafi verið í sjálfu sér heldur eru það stjórnvaldsreglurnar sem búa til verðgildið.

Það er ekki langt síðan við upplifðum það að það borgaði sig að byggja hér frystigeymslur og geyma kjöt af því að það var greitt sérstaklega fyrir það að geyma kjöt. Stjórnvaldsreglurnar leiddu til einhvers konar arðsemi á því sem í raun og veru hafði ekki falið í sér neina arðsemi eða neitt verðgildi. (Gripið fram í: Hvernig á að geyma kjötið?) Það er einmitt á þessum nótum sem ég vildi að hv. þm. kæmi hér upp og útskýrði fyrir mér hvað þessar fjárfestingargirðingar, hvað þessar endurnýjunarreglur hefðu með frjáls viðskipti að gera. Enn fremur, úr því að nauðsynlegt er að vera hér með tvöfalt stýrikerfi, þá held ég að það sé nauðsynlegt líka að hv. þm. útskýri fyrir þeim sem hér stendur og mörgum öðrum hvað það er sem veldur því að hann hefur ekki þá trú að aflamarkskerfið eitt og sér geti stjórnað fiskveiðum við Íslandsstrendur. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá skýringar hv. þm. á þessu vegna þess að hann hefur verið hvað einarðastur talsmaður frjálsra viðskipta hér á þingi.