Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 23:28:30 (2453)

1997-12-16 23:28:30# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[23:28]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þó ég geri það ekki að vana mínum að koma hérna upp samkvæmt pöntun, þá vil ég benda mönnum á að það er himinn og haf á milli frjáls markaðskerfis annars vegar í lýðfrjálsu landi eða mistökum glæpaklíkunnar í Kreml á sínum tíma og á það ekkert skylt við það að við viljum halda hér uppi lögum og reglu. Það hefur enginn hér á þessu þingi svo ég viti til verið talsmaður einhverrar ,,laissez-faire``-stefnu í efnahagsmálum. Enginn hefur haldið öðru fram en að okkur bæri í okkar þingræðisríki að hafa reglur og hafa lög. Það borgar sig fyrir alla, það er affarasælast fyrir alla að reyna að sníða þau eftir því sem við höfum hyggjuvit til. Það er mjög mikill munur á því hvort útgerðarmenn sjálfir, til þess að koma sér betur fyrir, til þess að búa til lífsrými fyrir sjálfan sig í íslensku landhelginni, fórna peningum til að kaupa hver af öðrum eða hvort skattborgararnir eru að halda uppi einhverjum óeðlilegum kaupum eða byggingum á frystigeymslum fyrir kjöt. Þetta er alveg fáránleg samlíking þannig að ég hef haldið því fram og ætla að halda því fram áfram að nota allt sem við vitum að hefur farsællega gengið fram og það er hefur verið hin góða íhaldsstefna. Hún er sú að yfirgefa seint það sem vel hefur reynst. Við höfum verið lánsmenn í þessu. Því er það eindregið mín skoðun að núna þegar við breytum þessum lögum, rýmkum, þá förum mjög varlega og sjáum til. Við vitum að þetta hefur fært okkur þá miklu gæfu að flotinn er að minnka. Við eigum að trúa því og treysta að við séum á réttri braut vegna þess að þegar jafnvægi er náð í flotann, þá verður eftirspurnin engin og verðið á rúmmetrum verður núll þannig að við þurfum ekkert að hafa áhyggjur af þessu. Þetta mun leiða til jafnvægis.