Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 23:32:29 (2455)

1997-12-16 23:32:29# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, Frsm. meiri hluta ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[23:32]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta hv. sjútvn. sem hefur legið frammi á þskj. 524. Þar kemur fram hvernig nefndin hefur fjallað um málið og einnig segir þar, sem rétt er, að frv. byggir á samkomulagi milli Landssambands smábátaeigenda og sjútvrh. Leggur meiri hluti nefndarinnar áherslu á að ákvæði frv. verði lögfest og staðið verði með þeim hætti við það samkomulag sem orðið hefur milli stjórnvalda og þeirra sem við þurfa að búa. Meiri hlutinn gerir tillögu um lagfæringar, orðalagsbreytingar í tveim liðum sem koma fram á þskj. sem í fyrsta lagi skýrir betur orðalag í a-lið 1. gr. og síðan að lokamálsliður bráðabirgðaákvæðis II falli brott.

Tveir hv. nefndarmenn undirrita álitið með fyrirvara, hv. þm. Stefán Guðmundsson og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson og ég hygg að þeir hafi báðir einhverju sinni gert grein fyrir afstöðu sinni til málsins almennt og eru eflaust færir um að gera grein fyrir því eftir því sem þeir sjálfir telja ástæðu til.