Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 23:34:14 (2456)

1997-12-16 23:34:14# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[23:34]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta sjútvn. á þskj. 554. Undir nál. rita ásamt mér hv. þm. Lúðvík Bergvinsson og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson.

Það frv., herra forseti, sem við erum að fjalla um og taka til 2. umr. varðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem fyrst og fremst tengjast málefnum smábáta. Þetta er þriðja tilraun hæstv. núv. sjútvrh. Þorsteins Pálssonar og ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar á þessu kjörtímabili til að taka á vandamálum tengdum fiskveiðistjórn smábáta.

Sú fyrsta var gerð með lagabreytingum í júní 1995, strax á hveitibrauðsdögum hæstv. ríkisstjórnar. Var því þá þegar spáð af gagnrýnendum þess máls að þær breytingar mundu reynast hálfkák og kalla á upptöku málsins á nýjan leik. Menn muna eflaust miklar sviptingar sem urðu í tengslum við afgreiðslu málsins þá þegar verið var að taka á vanda svonefndra krókabáta sem þá voru uppistaðan af smábátaflotanum. Ári síðar eða strax á vordögum 1996 voru menn aftur á ferðinni með breytingar í formi lagafrumvarps frá ríkisstjórn sem þá var að vísu að stofni til grundvallað á samkomulagi við Landssamband smábátaeigenda frá því á útmánuðum sama ár. Það fylgdi reyndar fleira í púkkinu með því frumvarpi, þar á meðal afnám svonefndrar línutvöföldunar sem framkvæmd var á afar umdeildan hátt, sem síðan hefur svo sannarlega leitt af sér ýmsar breytingar sem varað var við, t.d. hefur dregið verulega úr afla til löndunar og vinnslu á þeim tímum ársins sem línutvöföldunin gilti og dregið verulega úr línuveiðum, þar á meðal hafa flest stóru útileguskipin sem tóku til sín verulegan hluta af aflanum á línutvöföldunartímabilum síðustu vertíðirnar áður en tvöföldunin var afnumin, hætt þeirri útgerð, horfið úr landi o.s.frv., en það er önnur saga, herra forseti.

Rétt eins og vorið 1995 gagnrýndum við margir fulltrúar stjórnarandstöðu og áttum jafnvel stuðning yfir í stjórnarliðið, að þar væri aftur á ferðinni aðgerð sem hlyti að kalla á upptöku málsins á nýjan leik. Það gæti ekki farið öðruvísi en svo að það kerfi róðrardaga sem þá var sett upp og ljóst var að sá hluti smábátaflotans mundi velja sem hefði lakasta aflaviðmiðunina gagnvart svonefndu þorskaflahámarki stæði frammi fyrir gífurlegri fækkun róðrardaga strax að afloknu fiskveiðiárinu 1996--97 og það mundi væntanlega kalla á endurupptöku málsins. Sú hefur orðið raunin á og það hefur reyndar blasað við allt frá því snemma á þessu ári, allt frá því að síðasta fiskveiðiárið var að verða hálfnað eða svo, að það stefndi í gífurlega fækkun róðrardaga.

Þetta hefur sem sagt allt gengið eftir, því miður, og enn einn hringur er nú að ganga yfir í málinu. Eins og við blasti fór afli handfæra- og línubáta langt fram úr viðmiðun á þeim rúmum 80 dögum sem þeim var heimilt að sækja á síðasta fiskveiðiári. Kom þar til bæði það eðli kerfisins að ýta mönnum út í kapphlaup, í og með vegna væntinga um að aflareynsla á slíku tímabili kunni síðar að verða að viðmiðun, en einnig komu óvenjugóð aflabrögð og mikil fiskgengd á grunnslóð við sögu án efa, þannig að útkoman varð afli sem fór langt fram úr þessum viðmiðum. Við blasti fækkun róðradaga niður í 26 fyrir handfærabáta og 20 fyrir handfæra- og línuhópinn.

Auðvitað var fyrirséð að ættu menn erfitt með að sætta sig við þá niðurstöðu, ekki bara þolendurnir í málinu, þeir sem ættu að reyna að hafa afkomu af því að mega einungis sækja sjóinn í 26 daga á ári eða 20 með línu, og með margföldunarstuðlinum sem t.d. sókn á sumrin gerir ráð fyrir, samtals að fara á sjó 13, 14, 15 daga á árinu. Slík niðurstaða getur tæpast talist gerleg fyrir alla málsaðila og ekkert síður erfitt fyrir stjórnmálamenn að standa frammi fyrir þeirri niðurstöðu en aðra.

Útkoman hefur að sjálfsögðu orðið sú að menn hafa farið í viðræður um að gera þarna nokkra bragarbót á og milda þennan mikla niðurskurð. Heita á svo að samkomulag hafi tekist um það milli Landssambands smábátaeigenda og ráðuneytis að leggja til nokkrar breytingar, þ.e. að róðrardagarnir verði á fiskveiðiárinu, sem reyndar er þegar hafið og af eru liðnir þrír og hálfur mánuður, handfærabátar geta sótt í 40 daga og línubátar í 32. Að sjálfsögðu er nokkur bót að þessu en það er eftir sem áður ljóst að margir munu eiga erfitt með að láta enda ná saman miðað við afkomugrundvöll á árinu. Enn þá meiri þrýstingur verður á þeim sem velja t.d. þann kost að sækja með línu en endra nær að fullnýta þá daga, að sækja með sem allra mestum krafti, að róa með sem allra lengstri línu, með sem flestum krókum og gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana þó að bræli eftir að á annað borð er komið út á róðrardegi. Ég held að hver og einn hljóti að geta sett sig í þau spor að vera með í höndunum einn af sárafáum dögum sem eftir eru til að reyna að draga verðmæti að landi og bjarga afkomu fjölskyldunnar. Ég verð með öðrum orðum, herra forseti, að segja að mér er það mikið umhugsunarefni í hvers konar aðstæður er verið að dæma þennan hóp.

Ljóst er að með breytingunum er verið að opna fyrir fleiri möguleika og ég kem betur að þeim á eftir. Ég vil að síðustu segja um þessar almennu forsendur málsins að enn einu sinni, því miður, er verið að tjalda til einnar nætur. Það er ekki verið að fá neina varanlega úrlausn fyrir þennan hluta flotans, a.m.k. þann hluta handfæra- og línuhópsins sem lakasta eða nánast enga þorskaflahámarksviðmiðun hefur. Hann mun væntanlega ekki frekar nú en á síðasta ári sjá sér fært að færa sig yfir í það kerfi heldur telja sig dæmdan til að berjast um áfram í róðrardagakerfinu með mun færri daga. Það er fullkomin óvissa um hvað við tekur strax 1. september nk. því hér er um hreint bráðabirgðaákvæði að ræða sem setur gólf í dagafjöldann eingöngu á yfirstandandi fiskveiðiári og engum spurningum hefur verið svarað hér um það hvað menn ætlist til að taki við. Sjálfsagt er það ætlunin að meta þróunina og stöðu málsins þegar ljóst er hverjir nýta sér rétt til endurvals eða til úreldingar sem á að opna. Þá er enn einu sinni komið að því að menn standa þar með frammi fyrir þvinguðu vali milli tveggja kosta eða reyndar fleiri, það má segja að þeir séu þrír í þessu tilviki, þ.e. að hætta og úrelda, að berjast um áfram í róðrardagakerfinu eða að færa sig yfir. Gagnvart þessu vali standa menn upp við vegg og algjör óvissa er um hvað þeirra bíður, a.m.k. velji þeir þann kostinn að halda áfram í róðrardagakerfinu.

Herra forseti. Ef við lítum aðeins á einstakar breytingar samkvæmt frv. þá er þar fyrst fram að færa að í 1. gr. frv. er m.a. verið að gera þær breytingar á sóknarreglum þorskaflahámarksbáta að opnað er fyrir varanlegt framsal þorskaflahámarks krókabáts til annars báts án þess að færa þurfi allt aflahámarkið af viðkomandi báti og taka hann úr rekstri. Með öðrum orðum, opnað er fyrir hlutaframsal eða hlutakaup þorskaflahámarksins eins og um aflahlutdeild væri að ræða og framsalsreglurnar, að því er virðist, eiga í einu og öllu að lúta sömu lögmálum og gildir um aflahlutdeildina í aflamarkskerfinu. Enn fremur er opnað fyrir flutning innan hvers fiskveiðiárs eða leigu, undir því nafni gengur það manna á meðal, þó að vísu sé það bundið við 30% af úthlutuðu þorskaflahámarki hvers báts.

Um þessar breytingar höfum við sem minni hlutann skipum miklar efasemdir svo ekki sé fastar að orði kveðið. Hér er auðvitað augljóst mál að verið er að færa leikreglurnar í þessum afmarkaða hluta smábátaflotans nær því sem gilt hefur um aflamarksskipin. Það er í reynd verið að búa til lítið kvótakerfi innan þessa hóps með framsali og leigu og óþarfi að fara yfir þá miklu umræðu sem staðið hefur um einmitt þessa eðliseiginleika aflahlutdeildarkerfisins og þá miklu ólgu sem er í þjóðfélaginu um ýmis atriði því tengd.

[23:45]

Það sem ég tel þó alvarlegra í sjálfu sér en þessar breytingar sem slíkar er sú framtíð sem þetta teiknar til og ég óttast mest að verði, að menn muni síðan knýja á um frekari breytingar, afnema takmörk eins og þau að ekki megi leigja nema 30% og smátt og smátt taki þorskaflahámarkskerfið á sig nánast öll sömu einkenni og aflahlutdeildarkerfið og þá standi eftir krafan ein um að þetta verði sameinað og þorskaflahámarksbátunum eins og smábátunum á aflamarki verði heimilað að selja sinn veiðirétt upp fyrir sig. Sú krafa mun að sjálfsögðu koma upp. Hún er reyndar þegar aðeins á kreiki. Ekki þarf annað en horfa á mismunandi verð sem þarna eru í gangi á varanlegri aflahlutdeild annars vegar upp á 700--800 kr. kg fyrir þorskinn og þorskaflahámarkinu hins vegar sem enn er kannski einhvers staðar á bilinu 240--300 kr. kg. Auðvitað munu menn fara að þrýsta á um það að þeir sem eru með í höndunum umtalsverð framseljanleg verðmæti geti gert úr þeim jafnmikil verðmæti og aðrir sem eru að selja aflamark í þorski í aflahlutdeildarkerfinu.

Hver mun þróunin verða þá? Hún mun verða alveg sú sama og hún varð varðandi smábáta á aflamarki. Þeim mun hríðfækka og aflaheimildirnar munu færast upp til stærri útgerða. Þar með er þó sá hluti smábátaflotans sem hefur verið hólfaður af einnig lagður undir þessa þróun. Það held ég að sé ekki farsælt skref. Ef eitthvað væri hefði auðvitað átt að setja láréttar girðingar í fiskveiðistjórnarkerfið, og það fyrir löngu, sem tryggði að veiðiheimildir færðust ekki um of upp af smærri skipum til hinna stærri þannig að hlutföll að þessu leyti röskuðust ekki úr hófi fram í íslenska fiskiskipaflotanum. Við erum nánast einir þjóða, þar sem ég þekki eitthvað til stjórnkerfis fiskveiða, þar sem menn eru svo kerfisbundnir í þessum efnum að þeir heimila að veiðiréttindin á minnstu skeljum flotans séu lögð að jöfnu við þau sem gilda um stærstu úthafsveiðiskip og að réttur til sóknar eða veiða uppi á grunnslóðinni á smábátum geti hindrunarlaust færst upp á stærstu verksmiðjuskip. Ég þekki ekki mörg dæmi um að slíkt sé leyft annars staðar í fiskveiðistjórnkerfum. Þvert á móti eru menn mjög víða að reyna að feta sig í gagnstæða átt hvað það varðar að gera skýrari skil á milli smábátasóknar og veiða á grunnslóð og veiða á kyrrstæð veiðarfæri, á króka eða önnur kyrrstæð veiðarfæri, og annarra tegunda sóknar á stærri skipum með afkastameiri og þar með jafnvel viðsjárverðari veiðarfærum. Menn geta að sjálfsögðu haft sínar skoðanir á því hvort menn séu að hugsa um þessi mál af miklu viti í Noregi, Færeyjum eða Kanada eða víða annars staðar þar sem menn eru að sjálfsögðu að glíma við sambærileg vandamál en af einhverri undarlegri ástæðu eru menn á nánast öllum þessum stöðum að þróa hlutina að þessu leytinu til í talsvert aðra átt en við ætlum að gera. Það finnst mér að ætti að verða okkur Íslendingum umhugsunarefni jafnvel þó við séum miklir spekingar og trúum því gjarnan sjálfir að við vitum meira um sjávarútveg en nokkur önnur þjóð í heiminum og getum yfirleitt kennt mönnum flest sem þar er að kenna, þá er samt ágætt að staldra endrum og sinnum við og spyrja okkur hvort við séum að öllu leyti óskeikul í þessum efnum. Er allt fullkomið hjá okkur? Er hvergi ástæða til að staldra við? Ég er eingöngu að ræða um þessa hluti út frá forsendum lífríkisins og er ekki farinn að taka á þeim þætti málsins er snýr að hinum mannlegu og félagslegu þáttum, byggðamálunum í landinu o.s.frv.

Auðvitað hefur það lengi blasað við að einhver auðveldasta og öflugasta aðgerðin til að treysta stöðu byggðakeðjunnar á ströndinni hringinn í kringum landið væri að slá skjaldborg um smábáta og bátaútgerð og tryggja henni góðan lífsgrundvöll og afkomumöguleika og veita henni ákveðinn forgang að nýtingarréttinum á grunnslóðinni. Tilvera dagróðraflotans sem tilheyrir heimastöðunum yrði tryggð í framtíðinni því það er kjölfestan í fjölmörgum sjávarútvegsbyggðum þar sem ég a.m.k. þekki best til. Útgerð stærri skipa er eðli málsins samkvæmt mun minna tengd við byggðarlögin. Það gerist í æ ríkari mæli að þau landi þar sem ódýrast er með tilliti til fraktflutninga eða af öðrum slíkum praktískum ástæðum og áhöfnunum er flogið milli landshluta með flugvélum þannig að jafnvel eru þess dæmi að stór og glæsileg skip komi sárasjaldan eða nokkru sinni í heimahöfn. En það er báta- og smábátaútgerðin sem hefur bein tengsl við staðina og við grunnslóðina sem hún nýtir og er þar af leiðandi, ef hún er fyrir hendi eða svo lengi sem hún er fyrir hendi, kjölfestan í byggðinni.

Þetta framsalsævintýri, herra forseti, leyfi ég mér að taka inn í umfjöllun um þennan þátt málsins sem hér er verið að fara út í í sambandi við þorskaflahámarksbátana og við vekjum sérstaka athygli á í okkar nefndaráliti í minni hlutanum og vörum við.

Ég fer hratt yfir sögu og kem næst að ákvæði til bráðbirgða I. Þar er verið að festa þann dagafjölda fyrir handfæra- og handfæra- og línuhópinn m.a. í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I, sem ég vék áður að, þ.e. að dagafjöldinn skuli vera 40 fyrir handfærabátana og 32 fyrir línubátana á næsta ári og þar er einnig ákvæði um endurval og fleira því um líkt. Að sjálfsögðu er þetta til bóta frá því sem ella blasti við og hefði orðið útkoman á fiskveiðiárinu, 26 dagar annars vegar og 20 dagar hins vegar. En ég vísa til þess sem ég áður sagði um þá óvissu sem er fram undan eftir sem áður um að þetta er auðvitað mjög takmarkað svigrúm sem menn hafa um þá pressu sem með þessu er verið að setja á menn í sókninni. Ég hef fengið upphringingar á síðustu dögum í rysjóttu tíðarfari eins og það hefur verið. Ég veit um tvö nýleg dæmi um báta sem máttu hafa sig alla við að ná landi sökum þess að þeir höfðu tekið þá afdrifaríku ákvörðun að nýta einn af sárafáum róðrardögum sem þeir áttu til ráðstöfunar á árinu. Búið var að beita gífurlega línulengd og alla króka sem komið varð um borð með nokkuð skikkanlegu móti. Farið var út og línan lögð og síðan rauk upp með 7--8 vindstigum. Þó var haldið áfram við að draga og þrjóskast og þrjóskast, auðvitað allt of lengi og menn náðu landi við illan leik.

Herra forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé, því miður, að ræða þessa hluti eins og þeir eru. Þetta er afar erfiður frágangur, satt best að segja, að þurfa að skammta mönnum svo nauman kost í þessum efnum vegna þess þrýstings sem það setur á sóknina. Auðvitað má segja að þetta sé í eðli sínu alltaf fylgifiskur sóknartakmarkana þegar dagafjöldinn er orðinn lítill. Það er mér ljóst. Öll sóknartakmarkandi kerfi hafa þennan þátt að einhverju leyti innbyggðan í sér. En það liggur í hlutarins eðli að þeim mun meiri pressa sem er á mönnum að ná að bjarga sér með fáa daga, þeim mun meiri hættur eru þessu samfara. Það er þannig. Ég held að horfast verði í augu við það að ef menn ekki finna einhverja betri lausn á þessu en þá sem hér er í boði nú, þó skárri sé en ekki neitt, þá verður þarna ófremdarástand til frambúðar.

Menn geta síðan fært sig yfir milli kerfa. Ég ætla svo sem engu að spá um það hvaða áhrif það hefur, hvort einhverjir færa sig úr róðrardögum yfir í þorskaflahámarkið, hugsanlega þó e.t.v. í von um að geta nýtt sér þá framsalsmöguleika eða leigumöguleika sem þar er búið að opna. Þá eru menn á hinn bóginn að setja dæmið þannig upp að þeir eru nánast að dæma einhvern hluta hópsins til þess að gerast leiguliðar hinna. Ég verð að segja að með hliðsjón af því m.a. hvernig aflareynslan er tilkomin í þessum hópi, þá finnst mér siðferðislegur grundvöllur þeirra satt best að segja frekar hæpinn. Og það má reyndar segja um allt þetta fyrirkomulag á málefnum smábátanna meira og minna frá byrjun.

Að lokum um bráðabirgðaákvæði II þar sem er á ferðinni ákvæði um að úthluta varanlega 500 tonna jöfnunarpotti, sem verið hefur á verkefnaskrá Byggðastofnunar undanfarin ár að fara með. Ég vil segja um það atriði að við erum út af fyrir sig ekki andvígir því í minni hluanum, að gripið sé til aðgerða af þessu tagi til að reyna að bæta stöðu smábáta á aflamarki. Þvert á móti höfum við ýmsir lagt það margoft til. Ég hygg að því verði ekki á móti mælt að sá floti var um tíma nánast eins og gleymdur floti sem bjó við ákaflega þröngan kost, tók á sig að fullu niðurskurð í þorskveiðiheimildum á árunum frá 1990 eftir að þeir, sem það völdu á grundvelli valsins 1990, tóku aflamark og fengu satt best að segja litla úrlausn sinna mála fyrr en jöfnunaraðgerðir á síðasta og næstsíðasta ári komu til sögunnar sem vissulega ber að viðurkenna að hafi breytt geysilega miklu fyrir þennan hóp, fyrst og fremst sá pottur sem úthlutað er með 10 tonna þaki og nýtist minni bátunum mjög vel. Það er alveg ljóst að sú aðgerð hefur bjargað mjög miklu fyrir þann hóp og um það sem hér er verið að leggja til munar að sjálfsögðu, þó í litlu sé, að taka þau 320 tonn, sem reyndar var niðurstaðan að taka af 500 tonnum og úthluta til þessara báta. Hins vegar er ljóst að aðferðin í þessu sambandi er býsna vandasöm. Það hlýtur að vefjast fyrir fleirum en ræðumanni þegar um er að ræða aðgerð af þessu tagi, að taka verðmæti sem hér er á ferðinni, 320 tonn af varanlegu þorskaflamarki og úthluta því varanlega og án endurgjalds, eins og mjög er í tísku að segja, til tiltekis hluta skipa á aflamarki þó smábátar eigi í hlut. Ég er ekki sannfærður um að menn hafi enn fundið þá formúlu sem dreifir þessu sanngjarnt eða réttlátt, án þess að ég eigi neina prókúru á réttlætið sem sumir slá eign sinni á, þá ætla ég ekki að gera það, en menn verða þó að skoða miðað við þau pólitísku markmið eða skilgreiningar sem menn setja sér hvernig væri best að reyna að dreifa þessu með hlutfallslegri úthlutun og þá kannski þökum til að beina þessu til þeirra sem mesta hafa þörfina fyrir stuðning og eiga í mestum erfiðleikum með að lifa af því aflamarki sem þeir hafa. Höfum það í huga að hér eru að uppistöðu til einyrkjar á ferð sem reka sitt litla fjölskyldufyrirtæki og eiga fyrir sjálfum sér og sinni fjölskyldu að sjá og þá munar um hvert kíló næstum að segja.

Það varð niðurstaðan af einhverjum ástæðum þrátt fyrir það sem áður hafði verið lagt til, að mér skilst, á fundum Landssambands smábátaeigenda að taka 180 lestir af 500 og úthluta þeim til báta sem gerðir voru út frá þeim byggðarlögum sem Byggðastofnun hefur úthlutað til undanfarin ár. Fyrir því eru vissulega einnig rök. Það hefur munað um þessi byggðarlög inn í þær veiðiheimildir að sjálfsögðu en það er þó ljóst að hlutur þeirra sem fá þar allt upp að 8 tonnum verður nokkuð góður borið saman við hina sem fá í mesta lagi 2,5 tonn og jafnvel minna út úr úthlutuninni til aflamarks smábátanna.

Loks ber að geta þess, herra forseti, að í tengslum við þetta mál, sem verður á dagskrá á eftir, hefur verið lagt fram frv. til laga um breytingar á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins þar sem ætlunin er að bjóða eigendum krókabáta á handfærum og línu að úrelda sína báta á sambærilegum kjörum og í boði voru eftir lagabreytingarnar vorið 1996, þ.e. að borga allt að 80% af húftryggingamati bátanna í úreldingarstyrki. Reynslan sýndi að sú úrelding varð mun minni en menn höfðu átt von á, ábyggilega vegna þess að þeir sem áttu þá báta töldu það mun óhagstæðara, að tilboð þó það væri 80% á sama tíma og þeir sem höfðu þorskaflahámark gátu úrelt sína báta og fengið greidd 60% af tryggingamati en auk þess selt veiðiréttinn sem á bátunum var og komu þar af leiðandi út úr því dæmi yfirleitt með mun betri útkomu og meira milli handanna en hinir sem áttu báta í róðrardagakerfinu. Ég hef þess vegna efasemdir um að þetta tilboð muni hreyfa við miklu í þessum efnum. Það kann þó vel að vera að það takist ef það er þá markmiðið að fækka eitthvað í þessum hópi enn með úreldingartilboði. Eða einhverjir færi sig yfir milli kerfa þannig að einhverjir verði þá enn orðnir eftir í þessu síðasta vígi frjálsrar eða ómagnbundinnar sóknar, ef svo má að orði komast, en það er það sem hér um ræðir að handfæra- og línuhópurinn með um 400 fleytum eða svo er síðasti hluti íslenska fiskiskipaflotans sem ekki sækir á grundvelli magntakmarkana, aflamarks eða þorskaflahámarks.

[24:00]

Auðvitað læðist að manni sú hugsun að allt sé þetta meira og minna skipulagt ferli sem eigi sér þann lokapunkt að slík sókn hverfi út úr myndinni og á einhverjum tímapunkti hyggist menn klára dæmið eins og stundum er sagt gera það þannig að sóknin hverfi út úr myndinni og í staðinn komi aflamark eða þorskaflahámark yfir allan flotann.

Að allra síðustu, herra forseti, er ljóst í framhaldi af því sem hér hefur verið rakið að minni hlutinn treystir sér ekki til þess að standa að þessum breytingum eins og allt er í pottinn búið, ekki frekar en núverandi minni hluti stóð að breytingunum vorið 1996 eða árið 1995. Margt verður að teljast heldur óhönduglegt og ámælisvert í meðferð þessara mála sl. tvö og hálft ár og reyndar miklu lengur ef út í þá sögu væri farið. Ég hef sagt það áður og get endurtekið það að ég held að þegar og ef að því kemur að saga fiskveiðistjórnunar smábáta allt frá árunum 1986--1988 ... --- Á ég að gera hlé á máli mínu vegna fundahalda í forsetapúltinu, það er alveg sjálfsagt.

(Forseti (ÓE): Nei, ræðumaður er beðinn um halda áfram.)

Ég held, herra forseti, að ef þessi saga verður skrifuð muni hún ekki þykja falleg. Það muni ekki verða niðurstaðan að mönnum hafi heppnast mjög vel að taka á því mikla verkefni að stjórna sókn smábátanna í þau 10--12 ár sem búið er að vera að baksa við að reyna það og hafa þó ýmsir stórspekingar komið að því verki, bæði viðstaddir og aðrir sem eru að ganga úr salnum.

Niðurstaðan er þessi og bera auðvitað margir ábyrgð á sem komið hafa við sögu stjórnar landsins á þessum tíma frá 1986--1988 þegar fyrst var tekið til að reyna að takmarka sókn smábátanna með því að innleiða vissan fjölda banndaga á hverju ári. Síðan komst loksins á að taka fyrir óhefta fjölgun þeirra, allt of seint að vísu, og framhaldið þekkja menn og það hef ég að hluta til rakið í ræðunni.

Meginniðurstaða mín eftir skoðun þessara mála og hefur verið um alllangt skeið er að eina skynsamlega og góða framtíðarlausnin í þessum efnum væri að stokka stjórnkerfið upp í heild sinni og búa til eitt samræmt stjórnkerfi fyrir smábátaflotann og jafnvel bátaflotann eitthvað upp fyrir þau stærðarmörk sem dregin eru í dag, eitthvað upp fyrir 10 tonn, kerfi sem væri sniðið að eðli og þörfum þeirrar sóknar sem stundar dagróðra sem er háð gæftum og nýtir grunnslóðina næst landinu. Ég held að eðlilegasta kerfið sé óframseljanlegt hámark í mikilvægustu tegundum eftir því sem ástæða þykir til, jafnvel eingöngu í þorski, og tiltölulega mikið frjálsræði sem geti tekið mið af árstíðarbundnum fiskigöngum af landfræðilegum aðstæðum, aflabrögðum, gæftum og öðru slíku og síðan sé sett þak á sóknina frá hverjum og einum til þess að tryggja að menn hrammsi ekki til sín óheyrilegt magn og stundi ekki einhverja kraftútgerð þar sem róið sé á vöktum o.s.frv. Öllu þessu er auðvelt að koma fyrir í einu slíku samræmdu kerfi þar sem þorskaflahámarkið gæti annað tveggja verið eitthvert meðaltalshámark fyrir svæði eða stærðarflokka báta en menn gætu þá jafnframt til aðlögunar a.m.k. um eitthvert árabil valið eigin aflareynslu í hámark ef hún væri þeim hagstæðari. Með þessu móti mætti fikra sig inn í svona kerfi og komast út úr þessum skelfilegu ógöngum sem menn eru í með fjórfalt eða fimmfalt stjórnkerfi fyrir minnstu fleyturnar. En mest um vert væri þó það að ef menn mönnuðu sig upp í að gera breytingar af þessu tagi kæmust menn a.m.k. þó seint sé í burtu frá þeirri hroðalegu mismunun sem kerfið hefur innleitt milli manna á undanförnum árum með endurteknu þvinguðu vali út í óvissuna þar sem sumir völdu aflamark, aðrir krókaleyfi. Aflamarksbátarnir voru skornir niður við trog og tóku á sig gífurlega skerðingu á sama tíma sem krókabátarnir gátu veitt langt fram úr því sem reiknað hafði verið með og fengu svo það að verulegu leyti metið sem þorskaflahámarksreynslu. Þegar upp var staðið voru þar bátar sem hófu sókn á krókaleyfum og höfðu alls enga aflareynslu vorið 1990, þeir eru kannski komnir með á annað hundrað tonn á sama tíma og bátar sem höfðu 50--60 tonna aflamark fóru niður fyrir 20 þegar verst lét. Síðan hefur enn bætt úr með því að breytingarnar vorið 1996 hafa aftur opnað fyrir nýjan hring í málinu, nýja mismunun o.s.frv. Hver veit hvaða útkoma kemur úr því vali sem nú er verið að stilla mönnum upp frammi fyrir? Gæti það ekki orðið niðurstaðan að menn gætu farið býsna mismunandi út úr því? Sumir kalla það bara að vera heppna eða óheppna. En mér finnst það kannski vera dálítið kaldranalegt orðalag, a.m.k. þegar við erum að ræða um þessa hluti á hinu háa Alþingi af löggjafans hálfu að afgreiða það bara sem heppni eða óheppni að menn þurfi að velja í óvissu um afdrifaríka kosti fyrir starf sitt og útkoman verði svo kannski mikil mismunun milli manna.

Við í minni hlutanum munum að sjálfsögðu styðja þær breytingar á þeim frumvörpum sem við teljum til bóta eins og til að mynda að lyfta róðrardagafjöldanun þó í litlu sé. Við munum eftir atvikum sitja hjá eða greiða atkvæði gegn öðrum ákvæðum frv. í samræmi við þá efnislegu afstöðu sem ég hef rakið. Því miður er það að lokum alveg ljóst í mínum huga, herra forseti, að við erum ekki að segja skilið við þetta mál. Það er eingöngu spurningin hvenær næsti hringur hefst, hvenær málið kemur á dagskrá á nýjan leik. Ég verð að leyfa mér að segja að ég mundi þá vona að það yrði fyrr en síðar, þannig að við lentum ekki aftur í þeirri stöðu að vera með breytingarnar inn á fiskveiðiár sem þegar væri hafið eins og við erum að gera núna. Það er að líða fjórði mánuður af því fiskveiðiári sem breytingarnar eiga að hluta að taka til og þó að það sé ekki þannig að ég eigi mér þá hugsjón og framtíðarsýn að þurfa að standa í þessum ræðustóli á hverju einasta ári það sem ég á eftir ólifað í þingsölum og ræða málefni smábátanna en það hafa nokkurn veginn verið örlög mín og margra fleiri um allmörg undangengin ár eins og kunnugt er, þá skal ég sannarlega leggja það á mig að gera það a.m.k. einu sinni enn ef það mætti þá verða til þess, t.d. á vori komanda, að menn mönnuðu sig þá upp í það að ganga í eitt skipti fyrir öll frá þessum málum þannig að það gæti verið til einhverrar frambúðar.