1997-12-17 00:35:53# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, LB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[24:35]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég stend, ásamt hv. frsm. Steingrími J. Sigfússyni og Sighvati Björgvinssyni, að áliti minni hlutans. Hv. frsm. okkar flutti mál sitt hér skýrt og skörulega og kannski er ekki ástæða til þess að lengja þessa umræðu um of. En ég get vart orða bundist yfir ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem taldi að í skrifum minni hlutans fælust hortugheit eins og hann orðaði það. Ég get vel skilið að hann vilji líkja þessu við einhver hortugheit þegar hann les svart á hvítu leikrit sem eins gæti verið flutt í leikhúsi fáránleikans og hann sjálfur á sinn þátt í að skrifa. Ég get vel skilið að hann kalli það hortugheit að segja: Þetta er þriðja tilraun síðan 1995, á þremur árum, við að koma stjórn á smábátaflotann, þriðja. Hann talar um að menn hafi eitthvað komist fram veginn, þokað eitthvað áfram. Í hvert einasta skipti eru menn að bregðast við aðsteðjandi vanda sem hægt var að sjá fyrir skömmu áður. Samt var gert samkomulag og eins og hv. þm. sagði. Það gerði ekkert til þó að smábátarnir færu aðeins fram úr. Það gerði meira til að hinir færu fram úr. Þess á milli talar hann um að sátt sé á milli kerfa. Sátt á milli stærri bátanna og smábátanna.

Hv. þm. talar einnig um að nauðsynlegt sé að skapa lífsrými, rými fyrir þá báta sem stjórnvöld hafa leyft að koma inn í landið. Ljóst er að möguleikarnir á að nýta auðlindina eru takmarkaðir. Aukið rými eins hlýtur ætíð að vera á kostnað annars. Þannig er það og getur ekki verið öðruvísi. Því er nokkuð erfitt að átta sig á því í ræðu hv. þm. hvert hann var að fara. Kjarni málsins birtist í þessu frv. er sá að í því er ekki að finna neina framtíðarstefnu. Þetta er annað samkomulagið við Landssamband smábáta á tveimur árum. Bæði hafa komið til sökum þess að menn voru komnir í algerar ógöngur. Menn hafa verið að leita leiða út úr þeim ógöngum, gert samkomulag við smábátaeigendur og ráðuneytið og það síðan borið inn á þingið og stimplað. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig. Í þessu felst framtíðarstefnan sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að hér væri að finna. Að stoppa í þau göt sem þegar hafa myndast.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði hér í upphafi, þá flutti hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon okkar mál mjög vel og í sjálfu sér ekki miklu við það að bæta. En hins vegar held ég að ljóst sé að það frv. sem við ræðum hér mun ekki breyta miklu.

Það væri helst einn þáttur sem ég held að nauðsynlegt sé að gera að umtalsefni, en það eru þessar framsals- og leiguheimildir sem rýmka á í þessu kerfi. Ég vil taka undir með hv. þm. Gunnlaugi Sigmundssyni þegar hann sagði að í þessu smábátakerfi væri ekki víst að sömu lögmál giltu og varðandi veiðar stóru skipanna. Í raun kemur það hvergi fram og ekki hægt að lesa úr því sem núverandi ríkisstjórn hefur borið hér inn í þingið, hvernig nýta eigi smábátaflotann. Er ætlunin að fækka í þessum flota eins og kostur er, koma aflaheimildum á eins fáar hendur og kostur er eða láta þennan flota standa undir að stórum hluta atvinnu í hinum ýmsu dreifðu byggðum um landið? Hvernig ætla menn að nýta þennan flota? Á að nýta hann sérstaklega á grunnslóðinni? Hvað ætla menn að gera? Ætla menn einungis að gera samning um veiðar þessa flota og samþykkja, vitandi að ekki mun staðið við það samkomulag? Eru menn að tala um það? Í þetta vantar gersamlega framtíðarstefnu.

Ég vil ítreka að ég sé það ekki leysa vanda smábátaeigenda að færa það kvótabrask, sem menn hafa gagnrýnt mjög hjá stóru skipunum, inn í smábátakerfið. Ég sé það ekki og enn og aftur auglýsi ég eftir einhvers konar framtíðarstefnu. Þó geri ég ráð fyrir því að fjórði þáttur í leikriti hæstv. sjútvrh. í leikhúsi fáránleikans verði fluttur hér að ári liðnu eða svo.