1997-12-17 00:41:55# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[24:41]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef þrisvar sinnum komið með frumvörp til þess að reyna að bæta hag smábáta. Það er alveg rétt. Ég get sagt hv. þm. að þó að þetta væru 30 skipti þá mundi það ekki skipta máli. Við erum að vinna að þessu. Ég er ekki að segja að sátt sé komin milli útgerða lítilla báta og stórra en ég sagði að æskilegt væri að við næðum því. Þetta frv. er mikilvægt fyrir þá sem eiga allt sitt undir róðrum á smábátum. Það er mjög mikilvægt að fjölga dögunum úr 26 í 40. Það er mikilvægt að leyfa endurvalið. Það er mjög mikilvægt að opna aftur Þróunarsjóðinn. Allt þetta mun hafa jákvæð áhrif á smábátana og því er ekki ástæða til þess að gera lítið úr því. Það er hins vegar mikil þörf á því að vera ánægður með þann árangur sem þó hefur náðst vegna þess að hin staðan var afskaplega slæm. Ég tel, herra forseti, að til sóma væri að reyna að bæta allt það ástand sem er og það er mjög mikilvægt að floti einyrkjanna hafi hér þá stöðu sem lifandi er við og engin ástæða til að gantast yfir því.

Ég er ekkert viðkvæmur yfir textanum. Ég sagði að þegar menn skrifa í nefndarálit að allt sé með endemum, þá finnst mér það alveg óþarfi sérstaklega vegna þess að einn flutningsmannanna, hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, var með meiri hlutanum vorið 1996 þannig að það er heldur pínlegt að fara þeim orðum um eigin störf.