1997-12-17 00:46:17# 122. lþ. 44.11 fundur 303. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðiheimildir krókabáta) frv. 144/1997, GHall
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[24:46]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Í nál. meiri hluta sjútvn. gerði ég fyrirvara á undirritun minni. Ég vil gera grein fyrir hver ástæða þess var.

Þannig hagar til að dæmi eru um að 6 tonna trilla á aflamarki sé komin með á fjórða hundrað tonn af þorski. En algengast er að það sé á milli 6 og 7 tonn eins og hefur komið fram. Þó kom fram hjá hv. þm. Gunnlaugi M. Sigmundssyni að meðaltalsaflamark væri um 63 tonn.

Ég tek undir það sem fram hefur komið um ógæfuspor sem stigin eru um framtíð íslenskra smábáta og tel að þeir smábátamenn sem eru sammála þessum breytingum séu að vinna á móti sjálfum sér og í andstöðu við umræðuna í þjóðfélaginu við kvótabraskið sem hefur gengið allt of lengi og er það ógæfuspor sem þeir eru að stíga nú og á eflaust eftir að verða hinum dreifðu byggðum mikið vandamál.

Það sem ég hef sagt á undan leiðir af því sem ég og hv. þm. Guðjón Guðmundsson sem höfum lagt til í frv. laga um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Meginmál frv. gengur út á að banna framsal með þeim hætti sem verið hefur á undanförnum árum og þarf ekki að hafa fleiri orð um það. Til þess að vera sannfæringu minni trúr mun ég þegar þetta frv. verður afgreitt greiða atkvæði gegn c-lið 1. gr. frv. til breytinga á lögum nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða.