1997-12-17 00:57:34# 122. lþ. 44.12 fundur 302. mál: #A þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úrelding krókabáta) frv. 146/1997, Frsm. minni hluta SJS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[24:57]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Þetta mál tengist eins og hér kom fram hjá framsögumanni meiri hluta í 303. máli sem var til umræðu hér áðan og vísar minni hlutinn í aðalatriðum um afstöðu sína til rökstuðnings með því nál.

Ljóst er að í frv. er ætlunin að bjóða mönnum upp á þann möguleika að úrelda báta sem róið hafa á handfærum eða handfæra- og línuleyfum undanfarið ár og bjóða þeim þar sambærilega kosti og í gildi voru á síðasta ári og sett voru í gildi í framhaldi af lagabreytingum vorið 1996.

Við í minni hlutanum sjáum í sjálfu sér ekki ástæðu til að leggjast gegn fylgifrv. með breytingunni á lögunum um stjórn fiskveiða hvað smábáta varðar. Fremur er ástæða til að hafa efasemdir um að þetta muni leiða til mikilla breytinga. Bæði tel ég að það tilboð sem þarna er gert sé í lægri kantinum til að höfða til manna. Einnig hefði þá að mínu mati verið ástæða til ef hugur hefði fylgt máli að opna fyrir heimildir fyrir Þróunarsjóðinn að kaupa síðan þá báta sem veiðileyfi hefðu verið tekin af. Enginn vafi er á að sú heimild á úreldingartímabilinu hinu síðasta hafði talsverð áhrif í þá átt að menn sáu sér hag í að ganga til samninga við sjóðinn þegar hvort tveggja fór saman að hann greiddi 80% eða 60% af tryggingarverðmætinu en átti svo auk þess þann möguleika að selja sjóðnum bátinn að því loknu. Það varð ekki niðurstaðan í þessu tilviki að opna þá heimild. Með vísan til þess þá leyfi ég mér að lýsa því áliti mínu að ekki sé líklegt að það komi til stórfelldrar úreldingar á grundvelli þessa ákvæðis. Að sjálfsögðu er ekki ástæða til að amast við því að sá möguleiki standi þeim opinn sem þann kost vilja velja.