Rafmagnseftirlit

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:08:57 (2475)

1997-12-17 10:08:57# 122. lþ. 45.92 fundur 141#B rafmagnseftirlit# (umræður utan dagskrár), viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:08]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það var einkum tvennt sem hv. þm. gagnrýndi. Annars vegar var fullyrt að dregið hefði úr öryggi. Það er rangt. Og hins vegar að kostnaður sé nú meiri við eftirlitið en áður. Það er líka rangt. Mér er kunnugt um ástand rafmagnsöryggismála í landinu og ég tel það vera núna betra, öflugra og sterkara en það var áður.

Tilgangurinn með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á rafmagnsöryggismálum hér á landi er að auka ábyrgð fagmanna, eigenda og umráðamanna raforkuvirkja og neysluveitna, en þannig verði dregið úr beinum afskiptum stjórnvalda af eftirlitinu. Þessar breytingar lúta að því að auka öryggi neytenda gagnvart hættu af völdum rafmagns, að draga úr kostnaði við rafmagnseftirlitið og að auka skilvirkni og þjónustu við neytendur. Þetta nýja skipulag raforkuöryggismála sem hefur verið tekið upp hér á landi er í takt við það sem hefur verið að gerast í nágrannalöndum okkar.

Ástæða þess að stjórnvöld gerðu endurbætur á fyrirkomulaginu voru fyrst og fremst þær að um langt árabil höfðu samtök rafveitna, rafverktakar og innflytjendur raffanga verið óánægðir með fyrirkomulagið á rafmagnsöryggismálum. Meginatriði í gagnrýni þessara aðila var eftirfarandi: Í fyrsta lagi að rafveitueftirlitsgjaldið var látið standa undir kostnaði við raffangaprófun Rafmagnseftirlits ríkisins. Starfsemi raffangaprófunar var einnig talin óþörf vegna samninga Íslands um gagnkvæma viðurkenningu á vottunum og prófunum. Í öðru lagi að rafveitur væru látnar bera ábyrgð á eftirliti með neysluveitum og skyldaðar til að skoða allar nýjar neysluveitur í stað þess að beita úrtaksskoðunum. Þá var það skoðun Sambands íslenskra rafveitna að eftirlit með neysluveitum ætti ekki að vera í höndum þeirra þar sem hlutverk rafveitna væri fyrst og fremst að framleiða, dreifa og selja raforku. Það væri hlutverk stjórnvaldsins að bera ábyrgð á eftirliti með starfsemi löggiltra rafverktaka og þar með eftirliti með neysluveitum. Hið samfléttaða eftirlits- og stjórnsýsluhlutverk yfirstjórnar rafmagnsöryggismála hafði og sætt gagnrýni og á það verið bent að það væri andstætt nútímasjónarmiðum um góða stjórnsýsluhætti sem kalla á meira hlutleysi, aukið jafnræði og réttaröryggi. Samband íslenskra rafveitna taldi einnig að yfirstjórn rafmagnsöryggismála í landinu væri mjög óskilvirk.

Helstu breytingar sem gerðar hafa verið á þessu fyrirkomulagi eru eftirfarandi: Rafmagnseftirlit ríkisins var lagt niður í þáverandi mynd en stofnuð ný stofnun, Löggildingarstofa, sem tók við hlutverki þess. Prófun á rafföngum var hætt hér á landi en þess í stað beitt skilvirku markaðseftirliti. Framkvæmd rafmagnseftirlits var falið óháðum löggiltum skoðunarstofum á rafmagnssviði. Úrtaksskoðanir eru framkvæmdar í umboði Löggildingarstofu á háspenntum raforkuvirkjum og neysluveitum í stað aðalskoðana. Skoðanir eru nú framkvæmdar samkvæmt skilgreindum verklagsreglum og á því formi sem Löggildingarstofan ákveður. Krafa er gerð um að rafveitur og löggiltir rafverktakar komi sér upp innri öryggisstjórnun. Með því er átt við að á kerfisbundinn hátt verði þeim ráðstöfunum framfylgt.

Í lögum um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga, nr. 146/1996, er gerð krafa um að löggiltir rafverktakar komi sér upp innra öryggisstjórnunarkerfi með eigin starfsemi. Það hefur í för með sér að rafverktakar vinna eftir gæðakerfi sem tryggir að öll verk sem unnin eru í þeirra nafni séu yfirfarin í verklok og þannig tryggt að verkin séu framkvæmd samkvæmt settum öryggisreglum. Eins er öryggi neytenda gagnvart starfsemi rafveitna tryggt. Því eru gerðar sömu kröfur til rafveitna og rafverktaka. Rafveitum ber að koma sér upp skilgreindu innra öryggisstjórnunarkerfi. Það er gert til þess að tryggja öryggi raforkuvirkja og rekstur þeirra og þá jafnframt um leið öryggi neytenda.

Hv. þm. hélt því fram að kostnaður væri meiri við núverandi kerfi en áður hefði verið. Það er rangt. Hins vegar er erfitt að bera hann saman við kostnað á fyrirkomulagi rafmagnseftirlits eins og það var þegar það fyrirkomulag var við lýði. Árið 1992 lét Samband íslenskra rafveitna reikna út heildarkostnað vegna eftirlits sem Rafmagnseftirlit ríkisins og rafveitur sinntu þá og var áætlað að hann væri 240 millj. kr. Sjálfsagt er erfitt að finna nákvæmar tölur þar sem störf við rafmagnseftirlit voru áður fyrr ekki eins afmörkuð og nú er. Eftirlitsmenn rafveitna gegndu flestir öðrum störfum hjá rafveitum og voru skilin þar á milli oft óljós. Núverandi áætlaður kostnaður, samkvæmt nýju fyrirkomulagi, er 115 millj. kr. (Forseti hringir.) sem er mun lægri. (ÖJ: Ráðherra ætti að kynna sér það sem ...) Fyrir utan það þá var það svo að menn áætluðu eftirlitskostnaðinn hjá Rafmagnseftirliti ríkisins mun lægri en hann var í raun. Lægsti kostnaður á klukkustund var þá (Forseti hringir.) 6.181 kr. sem er hærra en nú. En það verður haldið áfram að þróa þetta fyrirkomulag rafmagnsöryggismála með það að markmiði að tryggja að það fyrirkomulag sem við höfum komið á verði öruggara, það verði betra, það verði skilvirkara og það verði ódýrara og þjónustan við neytendur verði bætt. Það mun takast og það hefur tekist að stórum hluta til.