Rafmagnseftirlit

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:17:27 (2477)

1997-12-17 10:17:27# 122. lþ. 45.92 fundur 141#B rafmagnseftirlit# (umræður utan dagskrár), SvG
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:17]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þessi umræða um rafmagnseftirlitið var allvíðtæk á sínum tíma þegar ákveðið var að einkavæða þessa starfsemi. Málið var til meðferðar á Alþingi aftur og aftur, m.a. vegna þess að ráðuneytið setti svo vitlausa reglugerð að það varð að leiðrétta hana fyrir atbeina Alþingis á sínum tíma, fyrir atbeina hv. iðnn. Síðan var málið knúið fram á Alþingi eins og menn þekkja. Við alþýðubandalagsmenn og óháðir, í okkar þingflokki, mótmæltum þessum vinnubrögðum og töldum að þetta væri hættulegt af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi að öryggið yrði minna og í öðru lagi að þetta yrði miklu dýrara. Við teljum að það hafi komið á daginn. Við teljum að það hafi komið í ljós að öryggið sé minna, að rafmagnskerfið í landinu sé í hættu vegna þess að ekki sé nógu vel að hlutunum staðið. Við teljum að kostnaðurinn fyrir einstaklingana í landinu, sérstaklega fyrir dreifbýlið, sé miklu meiri en hann var áður. Þetta er skoðun okkar og við styðjum hana rökum.

Í umræðunni hér kemur hins vegar fram vandi Alþingis því hæstv. ráðherra sem knúði í gegn lagabreytinguna gerir allt sem hann getur til þess að réttlæta hlutina og að halda því fram með góðu eða illu að þetta hafi verið jákvæð breyting. Staðreyndin er sú að þessi umræða ýtir undir það að maður veltir því fyrir sér að hér verði til sjálfstæðar rannsóknarnefndir í málum af þessu tagi af því ráðuneytunum er ekki treystandi, af því þau hlaupa undir ráðherrana í hvaða vitleysu sem þeim dettur í hug að halda fram. Ég vísa því á bug fullyrðingum ráðherrans í þessu efni vegna þess að hann er ekki hlutlaus. Hann er að verja sínar eigin gerðir og það er eðlilegt að hann reyni það eins og sem hann gerði. En það þýðir ekki að það (Forseti hringir.) eigi að taka mark á því. Þess vegna segi ég: Það er óhjákvæmilegt að þetta mál verði tekið aftur inn í iðnn. og farið rækilega yfir það þar hvort öryggismálin séu í lagi og hvort þetta sé ekki orðið miklu dýrara en gert var ráð fyrir og það var áður.