Rafmagnseftirlit

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:22:43 (2479)

1997-12-17 10:22:43# 122. lþ. 45.92 fundur 141#B rafmagnseftirlit# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:22]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Svar hæstv. ráðherra er alls ófullnægjandi og mér sannast sagna mjög mikið áhyggjuefni. Hann las upp úr skýrslu ráðgjafa sinna og hugmyndafræðinga þar sem fram kemur að allt sé í himnalagi, allt sé slétt og fellt og ekkert við þessi mál að athuga.

Hæstv. forseti. Nú er þrennt til í þessari stöðu. Í fyrsta lagi að allir þeir sem hafa gagnrýnt fyrirkomulagið og framkvæmdina, og á ég þar við rafverktaka, fulltrúa tryggingafélaga, sveitarstjórnarmenn og fjölmarga aðra sem hafa sinnt þessum málum, séu haldnir ranghugmyndum og misskilningi. Í öðru lagi að það séu hæstv. viðskrh. og ráðgjafar hans sem séu ekki í takt við veruleikann, geri sér ekki grein fyrir ástandinu eða í þriðja lagi að annar hvor hópurinn sé svo litaður af fordómum að hann fari vísvitandi með blekkingar og reyni að draga upp falsmynd. Eitt er víst að hér koma fram mjög alvarlegar ásakanir sem hæstv. ráðherra verður að taka alvarlega og það er ábyrgðarhluti af hans hálfu að skella við þeim skollaeyrum.

Rafmagnseftirlitið í landinu þarf að kanna af óháðum aðila. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Svavars Gestssonar um það efni. Það er staðreynd að inn í hugmyndavinnu ráðuneytisins hafa blandast miklir peningahagsmunir. Aðilar tengdir skoðunarstofum hafa komið mjög að ráðgjöf við iðnrh. Þetta kom fram við umræðuna hér fyrir réttu ári en hana heyrðu mjög fáir. Hún fór fram um nótt. Hún þoldi ekki dagsljósið. En nú skulu þessar staðreyndir fram í dagsljósið.

,,Hver var þá tilgangurinn með þessum breytingum`` --- er spurt hér í blaðagrein --- ,,fyrst eftirlitið versnaði svona mikið samfara því að kostnaður rauk upp úr öllu valdi? Hver hagnaðist á þessari breytingu?

Eftirlit með neysluveitum (Forseti hringir.) fólks, svo ekki sé talað um um háspennueftirlit, er ein brýnasta bruna- og slysavörn sem þekkist. Þess vegna lögðum við mikið upp úr því að sem tryggilegast væri um þessa hluti búið`` --- ég er að ljúka máli mínu, hæstv. forseti, --- ,,og í það var lögð mikil vinna og kostnaður. Nú sýnist það uppbyggingarstarf ætla að fara fyrir lítið. Menn standa því beinlínis agndofa og ráðþrota. (Forseti hringir.) Hvernig litist mönnum á 10% stikkprufueftirlit á ári með öryggi flugvéla og skipa?``

Mér litist ekki á það og mér lýst ekki á þau svör sem hæstv. iðnrh. eða viðskrh., sem fer með þennan málaflokk, hefur gefið.

(Forseti (GÁ): Þingsköpin eru ströng.)