Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:41:07 (2486)

1997-12-17 10:41:07# 122. lþ. 45.1 fundur 282. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:41]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir viðbrögðin við fyrirspurn minni. Ég tel það góða fyrirætlan að hefja þessa endurskoðun hið fyrsta og þær ábendingar sem fram hafa komið og undirtektir hæstv. ráðherra ættu að vera visst vegarnesti í það upphaf.

Ég hef nokkrar áhyggjur af því að ekki er nema rúmt ár, ekki eitt og hálft ár, til næstu kosninga. Auðvitað er mjög gott að endurskoðun löggjafar af þessu tagi geti fengið ákveðin lok hjá þeim ráðherra sem ber ábyrgð á málinu. Ég vil ekki draga úr hæstv. ráðherra að leitast við að ná þessu markmiði. Ég vil leggja því lið eins og ég get til að slík endurskoðun nái fram.

Ég tek undir orð ýmissa hér um að málið er víðfeðmt og tengist mörgu. Það er rétt hjá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að samfélagið er ekki velviljað fjölskyldunni almennt, börnum landsins o.s.frv. En það breytir þó ekki þeirri staðreynd í mínum huga að menn þurfa að líta á málin út frá sjónarhóli jafnréttis kynjanna og ekki síst jafnréttis kvenna. Þó að þar sé togstreita hvað varðar uppeldishlutverkið, heill barna o.s.frv., þá verða menn að reyna að tryggja að samfélagið sé þannig að konur fái notið sín sem þátttakendur í þjóðfélaginu á sem flestum sviðum í starfi sem og sinnt öðrum skyldum eftir því sem aðstæður þeirra bjóða og möguleikar leyfa og það skortir áreiðanlega ekki vilja þar.

Auðvitað varðar málið karla einnig og þetta er að sjálfsögðu samþætt eins og bent er á. Við þurfum að fylgjast með því, burt séð frá endurskoðun (Forseti hringir.) laganna, að ekki sé troðið á eðlilegum viðhorfum eða laganna bókstaf í þessum efnum. Allt þarf þetta að ganga sem best fyrir sig. (Forseti hringir.) Indæll er bjölluhljómurinn, virðulegur forseti.

(Forseti (GÁ): Þingsköpin gera kröfu til þess.)