Fullgilding samþykktar um starfsfólk með fjölskylduábyrgð

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 10:52:02 (2490)

1997-12-17 10:52:02# 122. lþ. 45.2 fundur 317. mál: #A fullgilding samþykktar um starfsfólk með fjölskylduábyrgð# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[10:52]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu hefur margsinnis verið rætt í þinginu. Það hefur komið fram aftur og aftur og það er vilji þingsins að þessi samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar verði fullgilt. Það hefur komið fram í umfjöllun félmn., það hefur verið hluti af samþykkt frá þinginu og eins og hæstv. félmrh. segir þá hefur hann og mörgum sinnum ítrekað nauðsyn þess.

En það er spurt um hvenær hann ætli að beita sér fyrir því. Hann kemur hér enn einu sinni og segir að hann hafi fullan hug á að vinna að fullgildingu þessarar samþykktar. En hvaða vinna hefur farið fram nú þegar? Hæstv. ráðherra segir að hann vilji fyrst leita eftir afstöðu aðila vinnumarkaðarins. Eins og hv. fyrirspyrjandi sagði áðan liggur afstaða Vinnuveitendasambandsins í rauninni fyrir. Þeir vilja þetta ekki. Þetta mun ekki verða hluti af kjarasamningum og þess vegna hlýtur að þurfa atbeina hæstv. félmrh. og þingsins. Ég spyr þess vegna hæstv. félmrh.: Telur hann ekki (Forseti hringir.) að það sé fullreynt að þetta verður ekki partur af kjarasamningum og hvernig ætlar hann þá að bregðast við? (Forseti hringir.) Hvenær ætlar hann að standa við þau orð og hrinda hinni mikilvægu samþykkt til fullgildingar?