Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:08:14 (2496)

1997-12-17 11:08:14# 122. lþ. 45.3 fundur 335. mál: #A atvinnuleysistryggingar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Frammistaða hæstv. félmrh. í þessu máli er með miklum endemum. Auðvitað er alveg ljóst að hæstv. ráðherra með einum eða öðrum hætti duldi þá staðreynd við meðferð málsins á þinginu hafi hann þá þegar verið ákveðinn í því að skerða atvinnuleysisbæturnar eins og raun bar vitni. Mér sýnist fljótt á litið að þetta hafi gerst ósköp einfaldlega þannig að hæstv. ráðherra hafi farið þá fjallabaksleið í málinu að hann breyti skilgreiningunni á því hvað skuli teljast fullt starf og gerir ríkari kröfur til vinnuskyldu, til að það sé uppfyllt, en áður var með breyttri skilgreiningu og út úr því kemur í öllu falli sú niðurstaða að um verulega skerðingu bóta hjá ýmsum er að ræða. Þetta er mergurinn málsins og auðvitað er hreinlegast fyrir hæstv. ráðherra að viðurkenna þetta.

Í öðru lagi hafa efndirnar á því að leiðrétta þetta verið í skötulíki. Það liggur líka fyrir. Hæstv. ráðherra kom hér og sagði að sér þætti það leitt ef eitthvað hefði farið úr böndunum hjá sér.

Í þriðja lagi er auðvitað öll útkoman á þessum (Forseti hringir.) atvinnuleysisbótamálum hjá hæstv. ráðherra hin hörmulegasta, (Forseti hringir.) þar með talið að afnema tengingu atvinnuleysisbóta við laun.