Atvinnuleysistryggingar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:13:24 (2500)

1997-12-17 11:13:24# 122. lþ. 45.3 fundur 335. mál: #A atvinnuleysistryggingar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi RA
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:13]

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Kjarni þessa máls er auðvitað þessi að hæstv. ráðherra breytir skilgreiningu á því sem telst vera fullt starf og vísar til lagabreytinga sem gerðar voru á sl. vori. Fyrst miðar hann síðan í útgáfu reglugerðar við alla daga ársins, meira að segja sumarleyfi, jólaleyfi, páskaleyfi og afturkallar síðan þá reglugerð en skerðingin heldur áfram og er áfram fyrir hendi. Hann segir að hann hafi ekkert verið að fela. En staðreyndin er auðvitað sú að enginn hér í þinginu og heldur ekki meðal umsagnaraðila áttaði sig á því að þetta flókna ákvæði fæli í sér nokkra skerðingu. Það er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir vegna þess að þessa var hvorki getið í ræðu ráðherrans né í athugasemdum við frv. og það er vitað að í nefndinni kom þetta aldrei til tals. Hins vegar gerðu aðilar vinnumarkaðarins fjöldamargar athugasemdir við frv. og frv. var mjög umdeilt. En þetta atriði var aldrei rætt vegna þess að það áttaði sig enginn á því að þarna væri um þessa stórfelldu skerðingu að ræða.

Auðvitað segir það sig sjálft að þegar ákveðin framkvæmd hefur átt sér stað í einn og hálfan áratug, þá er ekki forsvaranlegt að koma með frv. sem felur í sér það flókið ákvæði að með lúmskum hætti er laumað inn skerðingu sem enginn áttar sig á vegna þess að ráðherrann gerir ekki grein fyrir því. Svo ætlar ráðherrann að standa að því að þessi verði framkvæmdin með tilvísun til laganna. Þetta er algerlega óforsvaranleg framkoma og ég vil vissulega grípa í það haldreipi sem ráðherrann rétti að mér áðan þ.e. að hann vilji líta á málið ef eitthvað er óskýrt. Ég skora á hann að falla frá þessari skerðingu.