Dánarbætur

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:18:27 (2502)

1997-12-17 11:18:27# 122. lþ. 45.4 fundur 351. mál: #A dánarbætur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:18]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Í desember 1995 voru gerðar breytingar á almannatryggingalögunum, þ.e. lögum um félagslega aðstoð þar sem réttur til ekkjulífeyris var lagður af en réttur til dánarbóta rýmkaður þannig að þeir sem misstu maka gátu, ef þeir uppfylltu ákveðin skilyrði, fengið greiddar dánarbætur í lengri tíma til viðbótar við 18 mánuðina sem voru fyrir í lögunum. Ekki tókst við umræðuna að fá upplýsingar um hver þau skilyrði væru eða ættu að vera sem miðað var við í lagatextanum en tryggingaráð setti síðan reglur næstum ári síðar, þ.e. í nóvember 1996, um hvað skyldi gilda um þessar bætur.

Í textanum segir: ,,Ef hlutaðeigandi er með barn yngra en 18 ára á framfæri eða við aðrar sérstakar aðstæður er heimilt að greiða bætur í a.m.k. 12 mánuði til viðbótar 6 mánuðunum en þó aldrei lengri tíma en 48 mánuði.`` Í reglunum sem tryggingaráð setti er heimilt að greiða þeim sem missir maka dánarbætur eftir 18 mánuði ef þeir eru með tvö börn á framfæri eða fleiri, ekki þeim sem eru með eitt barn. Og í reglunum er einnig kveðið á um að öryrkjum skuli ekki ákvarða dánarbætur samkvæmt þessum viðbótargreiðslum.

Þetta er mikil þrenging á þeim lagatexa sem samþykktur var í þinginu. Það að öryrkjar sem missa maka fái ekki greiðslur dánarbóta eftir 18. mánuð aðeins vegna þess að þeir eru með skerta starfsorku er ósanngjarnt. Þetta er fólk sem er með lágmarksframfærslu. Það sama er að segja um foreldri með eitt barn, karl eða konu sem missir maka, hvað þá öryrkja með eitt barn sem á ekki rétt á þessu og öryrkjar með tvö eða fleiri börn ekki heldur.

Ég vil minna á að mæðralaun og feðralaun eru ekki lengur greidd með einu barni, það hefur verið afnumið og öryrkinn fær ekki heimilisuppbót ef hann missir makann vegna þess að hann er með barn á heimili sínu. Þessar dánarbætur eru mjög tekjutengdar, 25% skerðingarhlutfall er á þeim og þær byrja að skerðast við mánaðartekur sem eru 71 þús. kr. á mánuði og falla niður ef tekjurnar eru 119 þús. kr. þannig að fólk með meðaltekjur eða hátekjufólk á ekkert rétt á þessum bótum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver eru rökin fyrir því að þeir ekklar og ekkjur eiga minni rétt en aðrir, þ.e. öryrkjarnir eða foreldri með eitt barn, og telur hún réttlætanlegt að útiloka þessa hópa frá dánarbótum eftir 18. mánuð?

Nú falla þessar (Forseti hringir.) reglur, sem tryggingaráð setti, úr gildi um áramótin, herra forseti, og ég spyr því hæstv. ráðherra: Verður þetta óréttlæti (Forseti hringir.) leiðrétt með nýjum reglum sem eiga að gilda frá áramótum?