Dánarbætur

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:24:16 (2504)

1997-12-17 11:24:16# 122. lþ. 45.4 fundur 351. mál: #A dánarbætur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:24]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra, ég hef spurt um dánarbæturnar einnig skriflega en ég tel mjög mikilvægt að svar komi við þessari fyrirspurn fyrir áramót vegna þess að þær reglur sem ég tel vera mjög óréttlátar falla úr gildi um áramót og setja þarf nýjar reglur. Ég kalla eftir, herra forseti, afstöðu hæstv. ráðherra til réttlætis þessara reglna. Það er verið að tala um að dánarbætur séu settar til að létta undir framfærslu með þeim sem missa maka. Telur hæstv. ráðherra ekki ástæðu til að létta undir framfærslu öryrkja sem missir maka, sem missir annan framfæranda heimilisins? Tvöfaldar barnabætur eru ekki framfærsla ekkils eða ekkju. Barnabæturnar eru framfærsla barns. Það er því út í hött að telja barnalífeyri sem framfærslu ekkilsins eða ekkjunnar. Telur hæstv. ráðherra þetta vera réttlátar reglur eða hyggst hann leiðrétta reglurnar þannig að öryrkjum og foreldrum með eitt barn sé ekki mismunað að þessu leyti? Það er skýrt í reglum tryggingaráðs að öryrkjar fá ekki greiddar dánarbætur eftir 18. mánuð og sömuleiðis ekki foreldrar með eitt barn. Engu að síður eru þessar bætur mjög tekjutengdar og byrja að skerðast við 71 þús. kr. mánaðargreiðslur, falla út við rúmar 119 þús. kr. þannig að ég hefði talið að sú tekjutenging hefði átt að koma í veg fyrir að einhverjir sem þurfa ekki aðstoð við framfærslu eftir fráfall maka, ættu þá að falla út við tekjutenginguna. Ég kalla því eftir svörum frá hæstv. ráðherra um það hvort hann telji ekki ástæðu til að breyta þessum óréttlátu reglum sem bitna svona illa á þeim sem síst skyldi, (Forseti hringir.) þ.e. ekkjum og ekklum með eitt barn og eru lágtekjufólk og sömuleiðis öryrkjum.