Umferðarlög

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:31:08 (2508)

1997-12-17 11:31:08# 122. lþ. 45.5 fundur 337. mál: #A umferðarlög# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:31]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Í tilefni af þessari fyrirspurn hefur ráðuneytið aflað upplýsinga hjá einstökum lögreglustjórum um framkvæmd þessara mála. Í ljós kemur við þá athugun að aðeins innan við helmingur lögreglustjóranna í landinu hefur út tilkynningar til bifreiðaeigenda áður en til þess hefur komið að númer hafa verið tekin af bifreiðum. Hins vegar hafa langsamlega flestir lögreglustjóranna beitt heimildum til sekta þegar svo hefur staðið á. Þetta sýnir að verulega skortir á að um samræmda framkvæmd í þessum efnum sé að ræða.

Ég tek einnig fram að það er mín skoðun að það sé ekki í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að taka númer af bifreiðum án þess að á undan hafi farið tilkynning til viðkomandi aðila um það hvað í vændum er. Í ljósi þessa fól dómsmrn. ríkislögreglustjóra fyrir nokkru að gera tillögur um það hvernig staðið yrði að framkvæmd þessara mála til að tryggja að meðalhófs sé gætt við framkvæmdina og framkvæmdin verði samræmd í öllum lögsagnarumdæmum landsins. Það eru ýmis atriði sem geta komið til skoðunar. M.a. er hugsanlegt að skráningarstofu verði falið að senda út tilkynningar áður en bifreiðaeigendur eru komnir í þá stöðu að hafa dregið úr hömlu að koma með bifreið til skoðunar. Ég vænti þess að þegar tillögur ríkislögreglustjóra liggja fyrir í því efni verði reynt að bæta úr þeim annmörkum sem hafa augljóslega verið á framkvæmd mála.