Starfsumhverfi og framtíðarmöguleikar fiskvinnslunnar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 11:47:02 (2518)

1997-12-17 11:47:02# 122. lþ. 45.6 fundur 326. mál: #A starfsumhverfi og framtíðarmöguleikar fiskvinnslunnar# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[11:47]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Að því er grunnskólana varðar þá er það að segja að þar er talsvert námsefni til um íslenskan sjávarútveg. Kennarar hafa hins vegar nýtt það mismikið, meira á landsbyggðinni en í þéttbýlinu hér á suðvesturhorninu. Ráðuneytið skrifaði í vor öllum skólaskrifstofum landsins bréf þar sem þess var farið á leit að athygli skólastjóra og kennara yrði vakin á námsefninu og var því erindi víðast hvar vel tekið. Þá hefur ráðuneytið þegar samið við Námsgagnastofnun að í tengslum við Ár hafsins verði útbúið þemahefti um sjávarútveginn fyrir kennara. Í slíkri samantekt eru reifaðar hugmyndir að verkefnum fyrir mismunandi aldurshópa og bent á leiðir til að koma því á framfæri, ítarefni og námsgögnum.

Þá var í athugun að huga sérstaklega að kennsluefni um sjávarútveg fyrir yngri hluta grunnskólans en það þykir skólamönnum einkum að vanti nokkuð upp á.

Þá vil ég geta þess að nefnd sem lauk nýlega störfum og hefur gert tillögur um það að Hafrannsóknaskipið Dröfn verði hluta úr ári notað sem skólaskip og liggja fyrir tillögur sem ég vænti að komist til framkvæmda þegar á næsta ári um að ríkisstjóður standi undir kostnaði við slíkt tilraunaverkefni í tvö ár þó að þetta verkefni heyri til grunnskólunum eðli máls samkvæmt.

Að því er framhaldsskólana varðar er rétt að minna á að á sl. vori voru samþykkt ný lög fyrir framhaldsskóla. Í þeim eru ákvæði um starfsnám. Meðal annars er kveðið á um samstarfsnefnd sem stuðla á að tengslum skóla og atvinnulífs og vera menntmrh. til ráðuneytis um stefnumótun og starfsgreinaráð sem ætlað er að skilgreina þarfir fyrir kunnáttu og hæfni og setja markmið í starfsnámi. Þessa daga er verið að tilnefna í starfsgreinaráð fyrir sjávarútveginn og er þess að vænta að það skipi vinnuhópa um einstaka hluta menntunar sem að honum snýr, svo sem sjómannamenntun og fiskvinnslumenntun. Í ráðinu eiga sæti tveir fulltrúar atvinnurekenda og launþega og einn úr ráðuneytinu. Með þessu færist frumkvæði að starfsmenntun í sjávarútvegi til fulltrúa þeirra sem við greinina starfa.

Ég bind vonir við þessa þróun og á von á að veigamiklar breytingar verði á framboði til starfsnáms. Þeir sem starfa við sjávarútveg eru eins og í öðrum starfsgreinum að gera sér ljóst að greinin þarf sjálf og sjálfrar sín vegna að taka mikinn þátt í stefnumótun og hugsanlega axla meiri ábyrgð varðandi menntun á þessu sviði.

Fyrirboða þess sem koma skal má m.a. sjá í Verkmenntaskólanum á Akureyri þar sem hefst eftir áramót tilraun með árs starfsnám í fiskvinnslu. Námið er skipulagt á grunni könnunar sem gerð var meðal starfsmanna og stjórnenda matvælafyrirtækja nyrðra og er kennt m.a. í útgerðarfyrirtækjum við Eyjafjörð. Hugmyndin er að útskrifa ungmenni eftir eitt ár, sérhæfð í fiskvinnslustörfum en jafnaframt gætu þau ef þau kjósa haldið áfram námi sem sniðið er að þessum grunni.

Þessu til viðbótar má svo nefna að auðvitað er mikilvægt að atvinnufyrirtækin sjálf hafi frumkvæði í þessu efni. Það sem fram kemur í skýrslu fiskvinnslunefndarinnar lýtur ekki einvörðungu að nauðsynlegri menntun og þjálfun almenns starfsfólks heldur líka að hæfni stjórnenda og kunnáttu þeirra og þekkingu og þess vegna er mikilvægt að eigendur og æðstu stjórnendur fiskvinnslufyrirtækja hugi í ríkari mæli að þekkingu þeirra sem fara með stjórn atvinnufyrirtækjanna. Það er einnig mikilvægt í þessu sambandi sem hæstv. menntmrh. hefur vakið athygli á að ný lög skapa nú rýmri möguleika en áður fyrir atvinnugreinina að axla ábyrgð varðandi framkvæmd og frumkvæði og stjórnun skólastarfs á þessu sviði og ég vona að innan sjávarútvegs takist samstaða um að hlýða því kalli.