Lögbundin skólaganga barna og unglinga

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 12:04:40 (2524)

1997-12-17 12:04:40# 122. lþ. 45.7 fundur 322. mál: #A lögbundin skólaganga barna og unglinga# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur

[12:04]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans og vil sérstaklega fagna því sem hann hér upplýsir, að ákveðið hafi verið að boða til fundar í dag til þess að reyna að finna lausn á þessu máli. En ég er hræddur um að hér sé um víðtækara mál að ræða og stærri vanda en menn gera sér kannski almennt grein fyrir og birtist í þeim ummælum sem ég áður vitnaði til, í forstjóra Barnaverndarstofu, að vegna þess hve skólarnir víða á landsbyggðinni eru vanbúnir til að taka við nemendum sem eiga við einhverja erfiðleika að stríða, þá er þeim nemendum ekki fundið fósturheimili sem félagsmálayfirvöld helst vildu finna þeim. Það segir því ekki allan sannleikann þegar því er haldið fram að aðeins í einu tilviki sé sá vandi uppi sem hér um ræðir. Þetta er miklu stærra mál.

Það er alveg rétt að það er á ábyrgð sveitarfélaganna að framfylgja lögunum en það er engu að síður menntmrh. sem á að sjá til þess að öll börn njóti skólaskyldu. Í lögum um grunnskóla sem hæstv. menntmrh. vitnaði til hér áðan segir:

,,Menntamálaráðherra fer með yfirstjórn þeirra málefna sem lög þessi taka til og hefur eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lög þessi, reglugerðir við þau og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um.

Ráðuneytið skal fylgjast með að allir grunnskólar landsins eigi kost á sérfræðiþjónustu og að nemendur, sem ekki geta notið kennslu með fullnægjandi hætti í almennum grunnskóla, fái kennslu við hæfi.``

Eftir því sem ég hef kynnt mér þetta tiltekna mál þá veldur það vandræðum á svæðinu að skólana skortir fjármagn til að sinna þessu hlutverki sínu og það er menntmrh. og menntmrn. að sjá til þess að þeir fái peninga til þess að geta rækt lögbundnar skyldur sínar. Og nú hristir hæstv. menntmrh. höfuðið.