Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 13:41:27 (2528)

1997-12-17 13:41:27# 122. lþ. 46.2 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það sem við erum að leggja til með þessari brtt. er að Alþingi klári þetta mál og gangi skýrt frá því í lagasetningunni hversu lengi takmarkanir á endurnýjun fiskiskipa skuli vera við lýði. Við leggjum til að núgildandi ákvæði, eða væntanlega rýmkuð ákvæði eins og hér verða samþykkt samkvæmt þessu frv., skuli gilda í þrjú ár en falli þá úr gildi og þar með takmarkanir af þessu tagi á endurnýjun fiskiskipa. Við teljum það mikinn galla á málinu eins og það er fram borið af hálfu meiri hlutans því að samkvæmt því mundi ríkja áfram fullkomin óvissa um framtíð þessa takmörkunarkerfis, þ.e. hve lengi það verður við lýði. Til marks um það eru ýmsar, að vísu nokkuð misvísandi yfirlýsingar, sem hér hafa fallið í umræðunni af hálfu þingmanna stjórnarliðsins og hæstv. ráðherra. Við teljum nauðsynlegt að ganga með skýrum hætti frá því að hverju menn eigi að ganga í þessum efnum á komandi árum og nauðsynlegt að Alþingi taki af skarið með brtt. af þessu tagi.