Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 14:27:49 (2538)

1997-12-17 14:27:49# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[14:27]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að svör hæstv. menntmrh. séu ófullnægjandi. Sérstaklega að því er varðar atvinnulífsfulltrúana, þar sem hann svaraði í engu spurningu minni. Ég lagði á það áherslu að fá um það upplýsingar á hvaða faglegum forsendum hæstv. menntmrh. mundi velja þessa atvinnulífsfulltrúa. Ég held það sé mjög nauðsynlegt að fá það miklu skýrar fram en í svarinu áðan, sem var óhæfilega loðið, óhæfilega óljóst miðað við að verið er að ljúka málinu, miðað við að verið er að gera frv. að lögum, miðað við að í framhaldi af umræðunni verður þetta þannig að menntmrh. getur haft þetta vald í höndum sínum. Ég tel að það verði að koma skýrar fram hvaða faglegar grunnkröfur ráðherrann mun gera að því er þessa atvinnulífsfulltrúa 13. gr. varðar.

Svarið um háskólarektor tel ég líka mjög ófullnægjandi, vegna þess að svarið var að tilgangurinn með 14. gr. væri sá að styrkja þyrfti stöðu rektors í íslenska embættismannakerfinu. Fyrsta spurningin er nú sú, hefur rektor beðið um það? Svarið er nei. Rektor Háskóla Íslands hefur óskað eftir að menntmrh. léti ákvæði um rektorskjör í friði. Af hverju? Vegna þess að rektor og háskólinn hafa talið að þessi ákvæði eins og þau líta út hér yrðu til að veikja rektor háskólans en ekki styrkja hann. Þessi ótrúlega umhyggja fyrir samræmingarþörf á stöðu rektors við aðra embættismenn í landinu er alger markleysa, segir ekki nokkurn skapaðan hlut og er engin rök vegna þess að aðalrökin eru bersýnilega þau að ráðherrann vill hafa valdið til að skrifa upp á þann mann sem valinn er rektor.