Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 14:59:50 (2544)

1997-12-17 14:59:50# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[14:59]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Tölvunámið mun þróast á mismunandi hátt. Samið hefur verið við Verslunarskóla Íslands um Viðskiptaháskóla Íslands, þar sem tölvunarfræðinám og tölvunám er mjög ríkur þáttur. Einnig eru einkaaðilar að láta æ meira að sér kveða. Kvennaskólinn í Reykjavík hefur samið við Rafiðnaðarskólann um kennslu í tölvum og í nýtingu á tölvum.

[15:00]

Hér hefur verið farið inn á ólíkar brautir í því skyni að ná sem bestum árangri. Við Háskóla Íslands ætla menn að taka upp meistaranám í tölvunarfræðum o.s.frv. Það er því víða tekið á í þessu efni.

Út af orðum hv. þm. fyrr í tilefni þessa frv. að hún væri á móti móti skólagjöldum, þá vil ég nefna að í frv. er hvergi fjallað um skólagjöld og hvergi gert ráð fyrir að þau verði tekin upp. Eins og ég hef margsagt er frv. hlutlaust í þessu efni, og það er oftúlkun á frv. að segja að í því felist áform um að taka upp skólagjöld. Það er ekki og ástæða til að árétta það vegna ummæla hv. þm.

Um fækkun í háskólaráði og að ekki verði fulltrúar allra deilda sem eiga rétt til setu í háskólaráði, þá er það vissulega mikil breyting en í sjálfu sér hefur það ekki verið ágreiningsefni við neinn af háskólunum. Þvert á móti held ég að menn átti sig á því að háskólaráðin eiga að starfa eins og stjórnir sem taka ákvarðanir um málefni stofnananna án þess að allar deildir eigi þar endilega fulltrúa. Það er ekki markmiðið heldur að háskólaráðin hafi skýrt mörkuð verksvið og alveg ljóst að ákvarðanir þeirra um málefni viðkomandi stofnunnar eru endanlegar ákvarðanir eins og mælt er fyrir um í 11. gr. frv. Það er meginkjarninn í þessu máli.