Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:01:52 (2545)

1997-12-17 15:01:52# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:01]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Í 19. gr. þessa frv. er kveðið á um að í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers háskóla skuli setja reglur um hvernig hátta skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms við viðkomandi skóla. Þetta er býsna opið ákvæði og í ljósi reynslunnar, hæstv. forseti, vegna þess m.a. hvernig inntökugjöld hafa verið hækkuð á háskólastiginu og komið var á gjaldi og fallskatti á nemendur framhaldsskólanna, þá tel ég rétt í umræðunni að ítreka að ég er andvíg skólagjöldum. Mér finnst það vera ein af grundvallarreglum okkar samfélags og hefur verið frá því fræðslulög voru fyrst sett hér á landi, að almenn menntun skuli vera ókeypis og greidd úr okkar sameiginlegu sjóðum. Ég tel að sú regla sé eitt af því sem stuðlað hefur að hvað mestum jöfnuði í um áratuga skeið og geri það að verkum að almenn menntun er hér með því skárra eða besta sem gerist í heiminum ef við lítum á heiminn sem heild. Ég tel afar mikilvægt að halda í slíkar reglur og að ekki verði haldið inn á þær brautir að velja inn í skóla þá sem geta greitt fyrir menntun sína.