Háskólar

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:35:53 (2554)

1997-12-17 15:35:53# 122. lþ. 46.7 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:35]

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að ágreiningur um þetta mál sé miklu minni en margir vilja vera láta. Það er alveg ljóst að um það greinir okkur á, hv. þm. Svavar Gestsson og mig. Ég vil líka minna á að hér er um rammalöggjöf að ræða sem á að ná yfir starfsemi allra skóla á háskólastigi. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vitna sérstaklega, af því Háskóla Íslands hefur svo oft borið á góma í þessari umræðu, í bréf Háskóla Íslands frá 5. maí í vor þar sem segir, hv. forseti:

,,Háskólaráð æskir þess við Alþingi að háskólasamfélagið fái ráðrúm til haustsins til að geta fjallað rækilega um frv. til laga um háskóla.`` Síðar í þessu bréfi segir: ,,Háskólinn er því fylgjandi að lög verði sett um háskólastigið og telur flest atriði frv. fyrir utan IV. kafla þess til bóta fyrir háskóla í landinu.``

Það er alveg ljóst að í öllum meginatriðum hefur verið komið til móts við óskir Háskóla Íslands. Frv. var frestað síðastliðið vor í ágætu samkomulagi í menntmn. Síðan hefur meiri hluti menntmn. lagt fram brtt. sem koma til móts við megingagnrýni Háskóla Íslands við IV. kafla frv.