Kennaraháskóli Íslands

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 15:39:45 (2556)

1997-12-17 15:39:45# 122. lþ. 46.8 fundur 167. mál: #A Kennaraháskóli Íslands# frv. 137/1997, SvG
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[15:39]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið áður styð ég, og við, þetta frv. þar sem gert er ráð fyrir því að sameina fjóra skóla í einn, Kennaraháskólann, Fósturskólann, Íþróttakennaraskólann og Þroskaþjálfaskóla Íslands. Við teljum að þetta séu mikilvæg tíðindi í uppeldis- og kennaranámi í landinu.

Það sem ég vildi við 3. umr. málsins fá nánari upplýsingar um eru ýmis praktísk atriði varðandi þessa sameiningu umfram það sem gert er ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða. Í ákvæði til bráðabirgða í frv. er fjallað um ráðningu kennara og skólastjóra og annarra starfsmanna. Ég skil þetta ákvæði svo að allir starfsmenn þessara fjögurra skóla muni verða ráðnir að hinum nýja skóla. Starfandi hefur verið verkefnisstjórn undir forustu starfsmanns fjmrn. sem kynnti okkur í menntmn. ágætlega þá vinnu sem verkefnisstjórnin hefur verið að vinna og er ástæða til að þakka fyrir það. Mér fannst það vera greinargóðar upplýsingar. Því er hins vegar ekki að neita að aðstandendur þessa nýja skóla hafa miklar áhyggjur af ýmsum öðrum atriðum varðandi hann og þar á meðal húsnæðismálum. Ég er þá að hugsa alveg sérstaklega um Fósturskólann sem er með aðstöðu þar sem hann hefur lengi verið, í hinum gamla Laugalækjarskóla. Ég er einnig að hugsa um Þroskaþjálfaskólann sem hefur verið í leiguhúsnæði um skeið. Og ég er að hugsa um þá deilu sem uppi hefur verið í húsnæðismálum og tengist spurningunni um nýtingu á Stýrimannaskólanum þar sem upp hafa komið hugmyndir um að þessi uppeldisháskólastarfsemi flytjist að einhverju leyti í Stýrimannaskólann. Það hefur hins vegar sætt miklum mótmælum frá ýmsum, meðal annars hér í þessari virðulegu stofnun og ekki síst frá hv. þm. flokksbræðrum hæstv. ráðherra. Ég hefði viljað nota þetta tækifæri nú við 3. umr. til að fara fram á það við hæstv. menntmrh. að hann geri okkur grein fyrir því hvernig hann sér þessi praktísku mál fyrir sér varðandi húsnæðismál hins nýja skóla alveg sérstaklega.

Í öðru lagi minni ég á að við 2. umr. fjárlaga fluttu tveir þingmenn, ég og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir, tillögu um að settir yrðu nokkrir fjármunir í að endurskipuleggja þennan nýja skóla og stuðla að betri samvinnu skóladeildanna en kostur er á ella, meðal annars með tækjakaupum og öðru slíku. Ég vil einnig fara fram á það við hæstv. menntmrh. að hann segi okkur frá því hvernig hann sér þau mál fyrir sér því ég óttast að hinn nýi skóli hafi ekki nægilegt svigrúm til að búa sig tækjum, meðal annars kennslutækjum, og tækjum fyrir nemendur, eins og tölvum, sem nauðsynlegt er.

Ég vil þá í þriðja lagi og að síðustu nefna Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni. Fram hafa komið áhyggjur frá þeim sem þar starfa yfir því að hugsanlega verði skólinn fluttur þaðan og suður. Í hv. menntmn. fengum við mjög athyglisverðar upplýsingar um Íþróttakennaraskólann þar sem það kom t.d. fram að laun kennara voru ívið lægri ef þeir voru að kenna á Laugarvatni en ef þeir kenndu í Reykjavík. Það er nokkuð sérkennilegt. En hvað sem því líður hefði ég viljað heyra hjá hæstv. menntmrh. nú við 3. umr. hvort hann er með einhver áform uppi um það eins og er að flytja íþróttakennarakennsluna, ef svo mætti segja, hingað til Reykjavíkur frá þeim stað sem hún hefur verið um áratuga skeið.