Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 16:09:41 (2566)

1997-12-17 16:09:41# 122. lþ. 46.11 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. meiri hluta KÁ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[16:09]

Frsm. meiri hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta félmn. um frv. til laga um húsaleigubætur. Undir það rita allir nefndarmenn nema hv. þm. Pétur Blöndal sem skilar séráliti. Allnokkrir nefndarmenn skrifa undir með fyrirvara. Félmn. kallaði allmarga aðila á sinn fund til að ræða þetta mál en það bar að með nokkuð skömmum fyrirvara. Fyrir utan fulltrúa ráðuneytisins, fengum við til okkar fólk frá Félagsmálastofnunum Reykjavíkurborgar, Kópavogs, Seltjarnarness og Reykjanessbæjar. Við fengum einnig fulltrúa Leigjendasamtakanna, fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félagsstofnunar stúdenta. En hverjir þarna voru á ferð má lesa í nefndaráliti meiri hlutans.

Það frv. sem hér um ræðir er að meginstofni byggt á núgildandi lögum um húsaleigubætur þó gerðar séu nokkrar grundvallarbreytingar. Þær helstu eru að nú munu húsaleigubætur ná til allra sveitarfélaga á landinu og að bæturnar munu ná til allra leiguíbúða án tillits til eignarforms þeirra, samkvæmt skilgreiningu á íbúðarhúsnæði í 6. gr. frv.

Það voru allnokkur atriði í þessu frv. sem nefndin ræddi mjög ítarlega og kynnti sér sérstaklega. Fyrst er að nefna hvort nauðsynlegt væri að þinglýsa húsaleigusamningum til að þeir gæfu kost á húsaleigubótum. Eftir ítarlega skoðun varð það niðurstaða meiri hlutans að gera ekki breytingu á þessu þar sem þinglýsing samninganna yrði til að tryggja lagaleg réttindi leigjenda og draga úr misnotkun á kerfinu.

Nefndin ræddi ítarlega ákvæði 6. gr. um íbúðarhúsnæði og hvort sú skilgreining sem er að finna í 6. gr. væri of takmarkandi. Ég býst við, hæstv. forseti, að þessi grein muni koma allnokkuð til umræðu hér í dag. Niðurstaða meiri hlutans varð að leggja ekki til breytingu á þessari grein. Hún felur í sér að húsaleigubætur eru ekki greiddar vegna leigu á einstaklingsherbergjum ef eldhús eða snyrting er sameiginleg fleirum. Þó var gerð breyting frá gildandi lögum, sérstaklega hvað varðar baðaðstöðu. Reynslan hafði leitt í ljós að víða í gamla bænum hér í Reykjavík er húsnæði með þeim hætti að baðaðstaða er sér, stundum í kjöllurum, þó íbúðir væru fullnægjandi að öðru leyti. Sú breyting var gerð á þessu eftir mikla umræðu um það hvort ástæða væri til að víkka út þennan rétt og fella einstaklingsherbergi undir þennan flokk. Skoðun nefndarinnar leiddi í ljós að engin leið var að gera sér grein fyrir afleiðingunum, hversu margir leigjendur mundu bætast við og hvers konar húsnæði væri þar um að ræða. Þær röksemdir komu fram, meðal annars nefndarmanna sem undirbjuggu þetta frv., að rétt og skylt væri að stefna að því að fólk búi í mannsæmandi húsnæði og undir það beri ýta og styðja að fólk leigi sómasamlegar íbúðir en ekki ófullnægjandi húsnæði eða einstök herbergi. Talið var að forðast bæri að ýta undir að fullorðið fólk, þeir sem náð hafi tvítugsaldri, búi við ófullnægjandi skilyrði. Þetta mun eflaust koma nánar til umræðu en nefndin leggur ekki til breytingu á þessu.

Eins voru þau ákvæði 7. gr. sem lúta að markaðsleigu skoðuð en þar kom fram að menn hefðu í hinum ýmsu sveitarfélögum góða tilfinningu fyrir því hver leigan væri, og því eðlilegt að hvert sveitarfélag tæki mið af leigu á hverjum stað.

[16:15]

Nefndin leggur ekki til breytingar á þessu, hæstv. forseti. Þá ræddum við einnig nokkuð 8. gr. hvort eðlilegt væri að miða við 20 ára aldur þegar um er að ræða heildartekjur fjölskyldu en þau rök að miða við að flest ungmenni eru í skóla til tvítugsaldurs þóttu okkur í meiri hlutanum sannfærandi og við leggjum ekki til breytingu á þessu. Þá varð einnig nokkur umræða um 9. gr. frv. og um það hvort rétt sé að miða húsaleigubætur við almanaksárið og að það þurfi að endurnýja umsóknir á hverju ári. Það varð niðurstaða okkar að standa við það sem lagt er til. Allt lýtur þetta að því að gera kerfið öruggara og að það sé þá verið að sækja um bætur og leggja fram tilskilin gögn vegna raunverulegrar þarfar og bæri að stuðla að því að eftirlitið með kerfinu væri skilvirkt. Miklu meira vandamál í þessu sambandi er að ákveðinn hluti leigjenda fær ekki húsaleigusamning.

Þá varð einnig veruleg umræða um 14. gr. frv. sem lýtur að því hvenær félagsmálanefnd sveitarfélags er heimilt að fella niður greiðslu bóta. Nefndin leggur til þá breytingu að ef um veruleg leiguvanskil leigjenda er að ræða geti félagsmálanefndin fellt niður greiðslu bóta, stöðvað bótagreiðslur, eða eins og segir í brtt.: ,,greiða bætur beint til leigusala, og þá með samþykki leigjanda, ef nefndin fær vitneskju um veruleg vanskil leigjanda.`` Þannig hefur þetta verið gert í raun, meðal annars hjá Reykjavíkurborg, og meiri hluta nefndarinnar fannst rétt að hafa það skýrt í lögunum að þetta væri heimilt.

Að öðru leyti leggur nefndin til þrjár brtt., hæstv. forseti, sem tengjast því samkomulagi sem gert var milli ríkisins og sveitarfélaganna en þær eru eftirfarandi, hæstv. forseti:

Á eftir 2. gr. komi ný grein svohljóðandi: ,,Greiðsla ríkis til sveitarfélaga vegna húsaleigubóta. Ríkissjóður greiðir árlega 280 millj. kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem renna til sveitarfélaga vegna greiðslna húsaleigubóta. Fjárhæð þessi miðast við verðlag í janúar 1998 og breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs.`` Einnig er lögð til breyting á 14. gr. sem ég gerði grein fyrir áðan, hæstv. forseti, en þriðja brtt. er við 20. gr. sem verður 21. gr. en þar bætist við ,,auk ákvæða um upplýsingagjöf sveitarfélaga til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og um úthlutun úr sjóðnum.`` Þetta eru þau atriði sem setja skal reglugerð um.

Hæstv. forseti. Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara en fyrirvari minn lýtur fremur að því sem er utan frv. Það er framkvæmdin á málinu, sem er það atriði að í grunnforsendum málsins er gert ráð fyrir að sveitarfélögin sem hafa leiguhúsnæði á sínum vegum taki upp raunleigu. Ég hef fyrirvara varðandi það að ég vona að sveitarfélögin bregðist þannig við að leiga hækki ekki það mikið að þeir leigjendur sem eru í félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögunum verði fyrir kjararýrnun. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að Reykjavíkurborg hefur sett á fót sérstakan hóp sem er að skoða hvernig breytingin kemur við hina einstöku leigjendur. Menn eru nánast að reikna út hvern einasta mann sem er í leiguhúsnæði á vegum borgarinnar og það er stefna núverandi meiri hluta í Reykjavíkurborg að sjá til þess að leigjendur borgarinnar verði ekki fyrir kjararýrnun. Ég vona að önnur sveitarfélög bregðist eins við því að við vitum að sá hópur sem er í leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaganna er oftast sá sem verst er settur. Hitt atriðið sem ég vil nefna er skattlagning húsaleigubótanna, og vil beina því sérstaklega til hæstv. félmrh. að hann beiti sér fyrir því að þessar bætur verði undanþegnar skatti. Ég minni á í því samhengi að fram kom í þeim upplýsingum sem við fengum að tveir þriðju hlutar þeirra sem fá húsaleigubætur eru undir skattleysismörkum og það er þá hópurinn sem næstur kemur sem verður auðvitað fyrir skattlagningu og við hljótum að spyrja: Er réttlætanlegt að skattleggja bæturnar? Þetta verður til þess að rýra kjör leigjenda sem eru eins og við vitum og ég hef nefnt fyrr þeir sem iðulega standa hvað verst að vígi í samfélaginu.

Áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, vil ég geta þess að umræðan í nefndinni um 6. gr. laut ekki síst að nýjum tegundum íbúða, meðal annars á stúdentagörðunum, sem hafa verið skilgreindar sem einstaklingsherbergi. Það eru í raun og veru lokaðar einingar, þar eru tvö herbergi, leigð sitt hvorum námsmanninum en með sameiginlegu eldhúsi og baði. Þetta er íbúð. Munurinn er bara sá að ekki er sameiginlegt svefnherbergi. Við hliðina á þessum íbúðum eru svo aðrar þar sem hugsanlega býr í sambýlisfólk. Jafnvel geta það verið einhverjir sem taka sig saman um að leigja slíka íbúð en hún er skilgreind sem íbúð og fellur undir húsaleigubæturnar. Við ræddum töluvert mikið hvort hægt væri að ná utan um þetta atriði eða túlka greinina öðruvísi en kannski er það einfaldlega Félagsstofnun stúdenta sem verður að breyta skilgreiningunni á íbúðunum og leita eftir því að þeir sem taka þær á leigu fyrir samtals 32.000 kr. njóti húsaleigubóta eins og þeir sem eru í húsnæði sem er skilgreint sem íbúð og fellur undir 2. mgr. 6. gr.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að þessu sinni að ræða um tillögur minni hlutans. Það er rétt að hann fái að gera grein fyrir áliti sínu og brtt. áður en við ræðum þær en ég hef ýmislegt við þær að athuga.