Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 16:23:42 (2567)

1997-12-17 16:23:42# 122. lþ. 46.11 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[16:23]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að spyrja formann og frsm. nefndarinnar nánar út í það sem hún kom lítillega inn á og fyrirvari hennar byggist greinilega á og það er framkvæmdin á húsaleigubótunum. Komu engar upplýsingar fram í nefndinni nánar en við ræddum við 1. umr.? Í fyrsta lagi um það hve margir dyttu hugsanlega út, fengju hvorki niðurgreiðslu né húsaleigubætur en það kemur fram í frv. að áætlað er að það sé um fjórðungur, eða um 550 manns, sem þá þyrfti að greiða húsaleigu sem væri kannski 15--20 þúsund krónum hærri á mánuði en greitt er í dag. Er ekkert vitað nánar um hve stór hópurinn er? Hv. þm. nefndi að nefnd væri að störfum á vegum Reykjavíkurborgar. Má vænta að niðurstaða hjá þeirri nefnd liggi fyrir áður en frv. kemur til lokaafgreiðslu við 3. umr.? Mér finnst mjög slæmt, herra forseti, að afgreiða málið með þessum hætti, að ekkert liggur fyrir frekar um þetta en var við 1. umr. og eins líka þann hóp sem einnig var nefndur við 1. umr. Það er sá hópur sem situr uppi með ákveðinn mismun vegna þess að leigan hefur hækkað upp í raunkostnað og húsaleigubæturnar koma ekki fyllilega til móts við raunkostnaðinn. Það er þá undir hverju og einu sveitarfélagi komið hvort það greiðir mismuninn. Hv. þm. nefndi að Reykjavíkurborg hefði lýst því yfir og ég spyr nánar um það að hún ætlaði að tryggja að allir yrðu jafnt settir á eftir. Hvað með önnur sveitarfélög? Liggur nokkuð fyrir um það með önnur stór sveitarfélög, Akureyri, Kópavog, Hafnarfjörð, svo dæmi sé tekið? Mér finnst slæmt að skilja málið svona eftir án þess að við höfum nokkra frekari vitneskju um það hvað margir einstaklingar munu kannski verða verr staddir eftir kerfisbreytinguna en áður.