Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 16:30:37 (2570)

1997-12-17 16:30:37# 122. lþ. 46.11 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. meiri hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[16:30]

Frsm. meiri hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað er að hluta til verið að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaga þótt ríkið komi enn inn í með 280 millj. króna. Hv. þm. minnist þess eflaust að stefna ríkisstjórnarinnar var að færa þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna og lendingin er sú að ríkissjóður greiðir árlega 280 millj. króna í jöfnunarsjóðinn sem mun þá meðal annars verða til að jafna stöðu sveitarfélaganna í þessum málum. Síðan verða náttúrlega sveitarfélögin að koma þarna á milli. Við getum ekki sagt sveitarfélögunum skýrar fyrir verkum að mínum dómi. Ákveðið gólf er sett á bæturnar og síðan geta þau bætt þarna við og það verður á valdi hvers sveitarfélags hvernig þau framkvæma þetta. Hins vegar getum við lýst yfir þeim vilja okkar og það er fyrirvari minn um þetta og einlæg ósk mín að sveitarfélögin sjái til þess að þeir sem eru í leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaganna verði ekki fyrir kjaraskerðingu. Það er verið að setja ramma utan um þetta mál og það verður sveitarfélaganna að framkvæma. Ekki er einu sinni víst að þau þurfi öll að taka upp raunleigu þótt gert sé ráð fyrir því og það lagt til í upphaflegu frv. Reykjavíkurborg hefur ákveðið að fara þá leið en hún er jafnframt að kanna leiðir til að sjá til þess að við upptöku bótanna verði fólk ekki fyrir skerðingu heldur fái á annan hátt fjárhagslegan stuðning. En við skulum svo sannarlega fylgjast með framkvæmd málsins, hv. þm.