Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 16:59:59 (2574)

1997-12-17 16:59:59# 122. lþ. 46.11 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. meiri hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[16:59]

Frsm. meiri hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að hv. þm. sé ekki að leggja það til að það verði teknir upp markaðsvextir á námslánum.

[17:00]

Menn verða að gera sér grein fyrir í hvaða samfélagi þeir búa. Hverjir eru í námi og hvernig eru aðstæður þeirra? Er hlutverk ríkisvaldsins að reyna að jafna aðstöðu fólks? Hver er tilgangurinn með þessum húsaleigubótum? Hann er að akkúrat það sem segir í 1. gr., að reyna að jafna muninn milli þeirra sem eiga húsnæði og fá m.a. vaxtabætur og lán annaðhvort húsbréfalán eða eru með eldri lán frá Húsnæðisstofnun og svo hinna sem leigja. Það er verið að reyna að jafna þennan mun. Hv. þm. á að vita hverjir eru á leigumarkaði. Eins og hefur komið fram eru tveir þriðju hlutar þeirra sem fá húsaleigubætur undir skattleysismörkum. Af þeim er stærsti hlutinn námsmenn og það eru einhleypar konur og einhleypir karlmenn sem geta auðvitað líka verið námsmenn. Hugmyndir hans og útreikningar eru allsérstæðir. Menn verða að skoða hverja er verið að styðja með þessum lögum. Eins og ég nefndi í framsöguræðu minni má auðvitað deila um upphæð bóta og hverju eigi að bæta ofan á þær og hvenær þær eigi að byrja að skerðast o.s.frv. Vonandi munu sveitarfélögin sjá til þess að þær verði sem réttlátastar.

Að lokum, hæstv. forseti, vegna þess að hv. þm. nefndi þann hóp gæti hugsanlega orðið fyrir skerðingu þá hefur það verið eins og hv. þm. á að vita eftir umfjöllun um málið að leiga í leiguíbúðum Reykjavíkurborgar hefur verið afar lág, hún hefur verið langt undir almennu markaðsverði. Með því að færa leiguna upp í raunverð verður auðvitað mikil hækkun á leigu hjá þessu ákveðna fólki og húsnæðisbæturnar vega ekki upp á móti þeirri hækkun. Þess vegna er verið að skoða þessi dæmi sérstaklega og verið að leita leiða til að bæta því fátæka fólki, hv. þm., þessa skerðingu. Við skulum ekki gleyma því að við erum að tala um það fólk sem stendur oft verst að vígi í samfélagi okkar.