Húsaleigubætur

Miðvikudaginn 17. desember 1997, kl. 17:02:34 (2575)

1997-12-17 17:02:34# 122. lþ. 46.11 fundur 290. mál: #A húsaleigubætur# (heildarlög) frv. 138/1997, Frsm. minni hluta PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur

[17:02]

Frsm. minni hluta félmn. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir hefur ekki enn fært rök fyrir að það séu rangfærslur í nál. mínu eða nál. minni hlutans. Ég óska eftir að hún geri það. (KÁ: Í ræðu?) Já, í ræðu á eftir.

Það eru engar rangfærslur neins staðar sem hún hefur bent á. Það að tveir þriðju séu undir skattleysismörkum getur vel verið og er mjög líklegt. Ég gat um það áðan að einn þriðji er námsmenn og þeir eru væntanlega flestir undir skattleysismörkum og þeir fá bætur þannig að þá er ekki nema einn þriðji eftir sem er undir skattleysismörkum og er vinnandi og hefur af ýmsum ástæðum ekki tekjur þannig að það er mjög eðlilegt. En það sem hv. þm. var að benda á það er akkúrat það sem ég nefndi. Þeir sem eru með 125 þús. kr. í tekjur fá nákvæmlega sömu bætur og þeir sem hafa engar tekjur. Það er vandamálið. Það er vandamálið að ekki er tekið tillit til þeirra sem hafa engar tekjur. Það er ekki tekið neitt tillit til þeirra. Þeir fá sömu bætur og sá sem er með 125 þús. kr. (Gripið fram í.) Það er málið, það er sumt fólk hjá Reykjavíkurborg með mjög litlar tekjur eins og hv. þm. gat um. (Gripið fram í: Þeir fá fjárhagsaðstoð.) Já, þeir fá fjárhagsaðstoð en það fólk hefur mjög lágar tekjur og það fær sömu bætur og sá einstaklingur sem er með mjög lágar tekjur segjum 15--20 þús. kr. á mánuði, hann fær sömu bætur og sá sem hefur 125 þús. kr. á mánuði bara fyrir sjálfan sig.