Markaðshlutdeild fyrirtækja

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:03:03 (2577)

1997-12-18 10:03:03# 122. lþ. 47.1 fundur 215. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (áætlunarflug) fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi TIO
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:03]

Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Á Alþingi hefur verið lagt fram frv. til laga um stjórn fiskveiða sem hefur þann tilgang að koma í veg fyrir að aflahlutdeildir safnist í of miklum mæli á einstaka aðila. Í athugasemdum með frv. kemur fram að kvótaeign stærstu fyrirtækja er á bilinu 4--5%, eignarhald er mjög dreift og samþjöppun aflahlutdeilda á einstaka aðila hefur ekki verið ýkja hröð. Miðað við þær upplýsingar verður ekki séð að þörf sé á þessu frv. og sérstökum ráðstöfunum til að hindra þróun stærstu útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjanna á þeirri forsendu að hætta sé á því að í krafti kvótaeignar sinnar fái sjávarútvegsfyrirtæki of mikil völd í og staða þeirra gagnvart stjórnvöldum geti orðið of sterk.

Af þessu tilefni er nauðsynlegt að fá upplýsingar um stærð og fyrirferð fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum svo bera megi saman hættu á fákeppni og yfirþyrmandi áhrifum einstakra fyrirtækja á stjórnvöld, annars vegar í sjávarútvegi og hins vegar í ýmsum öðrum atvinnugreinum. Ég hef því flutt eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. samgrh.:

1. Hefur ráðherra upplýsingar um markaðshlutdeild tveggja stærstu fyrirtækja landsins í áætlunarflugi?

2. Telur ráðherra ástæðu til, með tilliti til markaðshlutdeildar þessara fyrirtækja, að setja lög sem takmarka umsvif og starfsemi þeirra umfram það sem samkeppnislög segja til um?