Markaðshlutdeild fyrirtækja

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:04:50 (2578)

1997-12-18 10:04:50# 122. lþ. 47.1 fundur 215. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (áætlunarflug) fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:04]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ráðuneytið skrifaði helstu flugfélögum hér á landi til þess að fá viðbrögð þeirra við fyrirspurn hv. þm. Tvö stærstu fyrirtæki landsins í áætlunarflugi munu vera Flugleiðir og Flugfélag Íslands en ég kaus að senda fyrirspurnina víðar. Flugleiðir svara henni svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Með tilvísun til bréfs yðar varðandi markaðshlut fyrirtækja í flugrekstri á Íslandi og vangaveltur um hugsanlega takmörkun stærðar fyrirtækja á markaðnum vilja Flugleiðir koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:

1. Markaðshlutdeild. Engar opinberar tölur liggja fyrir um markaðshlutdeild einstakra fyrirtækja en ætla má að markaðshlutdeild Flugleiða í farþegaflugi til og frá landinu sé um 80%. Þjónusta félagsins á íslenska markaðnum er þáttur í heildarstarfsemi Flugleiða í alþjóðaflugi sem fyrst og fremst er bundið við Norður-Atlantshaf. Ætla má að markaðshlutur Flugleiða á heildarmarkaði sínum sé innan við 1%. Þjónustustig í flugi til og frá Íslandi, mælt í úrvali áætlunarstaða, ferðatíðni og úrvali ferðagjalda, er mjög hátt miðað við stærð þessa hluta heildarmarkaðar félagsins og byggir á samþættingu flugs til og frá Íslandi og flugs yfir Norður-Atlantshaf.

2. Takmörkun stærðar. Flugleiðir telja enga forsendu fyrir takmörkunum af því tagi sem drepið er á í bréfi yðar. Félagið þekkir engin fordæmi um slíkt á erlendum markaði. Millilandaflugrekstur er í eðli sínu alþjóðleg starfsemi og ekki hægt að líta á aðgang að markaðnum sem aðgang að takmarkaðri auðlind. Flugrekstur milli Íslands og annarra landa er að langmestu leyti á leiðum milli Íslands og landa Evrópska efnahagssvæðisins annars vegar og milli Íslands og Bandaríkjanna hins vegar. Vegna samningsins um Evrópska efnahagssvæðið er flugrekstur milli Íslands og annarra landa EES opinn öllum flugfélögum á svæðinu sem hafa tilskilin leyfi. Vegna nýs loftferðasamnings við Bandaríkin er öllum íslenskum og bandarískum flugfélögum heimill flugrekstur á leiðum milli landanna. Þetta á jafnt við um farþega- og fraktflug. Takmarkanir á umsvifum íslenskra fyrirtækja mundu einungis hafa þau áhrif að draga úr samkeppnisgetu þeirra á alþjóðamarkaðnum sem Ísland er sannarlega hluti af.

Flugmarkaðurinn milli Íslands og annarra landa er einn hinn minnsti sem um getur í alþjóðaflugi. Flugleiðir sem eru stórt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða er eitt af þremur minnstu fyrirtækjum The Association of European Airlines, Samtökum evrópskra áætlunarflugfélaga. Í þeim samtökum eru 26 helstu áætlunarflugfélög í Evrópu.

Flugrekstur krefst mikilla fjárfestinga og skuldbindinga. Þetta á einkum við um áætlunarflugrekstur. Flugleiðir sækja 3/4 tekna sinna í alþjóðaflug á erlendan markað og eiga þar í samkeppni við flugfélög sem flest eru margfalt stærri. Í þeirri samkeppni líður félagið fyrir eigin smæð og telur því brýnt að tryggja meiri stærðarhagkvæmni í rekstrinum. Því hefur félagið kynnt áform um verulega sókn í alþjóðaflugi.

Flugleiðir þjóna íslenska markaðnum með beinu flugi til 23 áætlunarstaða erlendis (sumaráætlun 1998). Þeim hefur fjölgað um 30% frá því í upphafi þessa áratugar og ferðatíðni til og frá landinu hefur meira en tvöfaldast. Þetta hefur fyrst og fremst gerst vegna þess að Flugleiðir hafa samþætt þjónustuna til og frá Íslandi vaxandi starfsemi í flugi yfir Norður-Atlantshaf. Íslenski markaðurinn nýtur þannig aukinnar alþjóðlegrar starfsemi. En með sama hætti styður starfsemi Flugleiða á heimamarkaðnum alþjóðlega sókn fyrirtækisins. Félagið telur að hugmyndir um takmörkun á umsvifum fyrirtækisins við þær kringumstæður sem hér er lýst væru á skjön við það samkeppnisumhverfi sem skapað hefur verið í millilandaflugi. Þær mundu vafalítið koma mjög illa niður á heildarstarfsemi Flugleiða og veikja félagið í alþjóðlegri starfsemi. Án efa yrðu þær einnig til þess fallnar að skerða mjög verulega flugþjónustu milli Íslands og annarra landa.``

Undir þetta skrifar Einar Sigurðsson.

Um Flugfélag Íslands segir í bréfi til ráðuneytisins:

,,Frá stofnun Flugfélags Íslands 1. júní 1997 hafa flutningar í innanlandsflugi félagsins verið sem hér segir: Júní 30.765, júlí 32.964, ágúst 33.626, september 23.153, október 26.324, nóvember 24.352.``

Thor Ólafsson skrifar undir.

Frá Íslandsflugi berst svohljóðandi svar:

,,Ég vísa til bréfs þíns vegna fyrirspurnar Tómasar Inga Olrich um markaðshlutdeild í áætlunarflugi innan lands. Okkar hlutdeild er á bilinu 20--25%.``

Þetta er frá Íslandsflugi, undirskrifað Ómar.

Frá Mýflugi kemur fram að þeir telja önnur úrræði en samkeppnisleg ekki koma til með að tryggja samkeppni í innanlandsflugi. Leifur Hallgrímsson undirritar fyrir hönd Mýflugs.