Markaðshlutdeild fyrirtækja

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:14:20 (2581)

1997-12-18 10:14:20# 122. lþ. 47.1 fundur 215. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (áætlunarflug) fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:14]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Mér vannst ekki tími áðan til að svara síðari spurningunni. Ég taldi nauðsynlegar forsendur fyrir því svari að skýra stöðuna frá sjónarhóli áætlunarflugfélaga landsins.

Auðvitað má segja að hv. þm. hafi haft rétt fyrir sér þegar hann sagði áðan að Flugleiðir hefðu 80% markaðshlutdeild á sínum flugleiðum þó réttara væri að segja Flugleiðir hafa 1% markaðshlutdeild ef litið væri á starfsemi þess félags í því samhengi að það byggir vöxt sinn og viðgang á Norður-Atlantshafsfluginu. Það er mikill meiri hluti af þeirra starfsemi þannig að það verður að horfa á Flugleiðir í því ljósi.

Með hliðsjón af því sem ég greindi frá áðan og vegna þess að ekkert af flugfélögum landsins telur ástæðu til að athuga hvort rétt sé að takmarka umsvif keppinautanna ... (Gripið fram í: Ekki einu sinni Mýflug?) Ekki einu sinni Mýflug. Mýflug hefur að vísu orð á því, ég hafði ekki tíma til að lesa allt svarið, að fram að þessu hafi það ekki haft tækifæri til að fljúga áætlunarflug í eigin nafni. Það hefur auðvitað takmarkað vöxt og viðgang þess félags en ekkert af fyrirtækjunum telur ástæðu til að takmarka umsvifum keppinauta á innanlandsflugleiðum með lögum og Flugleiðir telja ekki ástæðu til að slíkt verði gert í millilandaflugi. Þeir telja ekki ástæðu til að sporna gegn erlendri samkeppni þannig að mér virðist greinin aðhyllast frjálsa samkeppni, óhindraða frjálsa samkeppni. Sú er raunar líka stefna stjórnvalda.