Markaðshlutdeild fyrirtækja

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:17:05 (2583)

1997-12-18 10:17:05# 122. lþ. 47.2 fundur 216. mál: #A markaðshlutdeild fyrirtækja# (sjóflutningar) fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:17]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Í samræmi við eðli fyrirspurnarinnar taldi ég rétt að gefa skipafélögum tækifæri til að tjá sig um hana. Eimskipafélagið svarar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Vísað er til fyrirspurnar ykkar til Eimskipafélagsins í framhaldi af fyrirspurn Tómasar Inga Olrich alþingismanns til samgönguráðherra um markaðshlutdeild í sjóflutningum.

Ef litið er til heildarflutninga Eimskips til og frá landinu árið 1996 eins og þeir eru birtir í ársskýrslu félagsins, þá voru þeir samtals 946 þús. tonn. Samkvæmt Hagtíðindum eru heildarflutningar til og frá landinu, að frádregnum flutningum með flugvélum, samtals 3.173.579 tonn. Samkvæmt þessu var markaðshlutdeild Eimskips í sjóflutningum til og frá landinu um 30% á síðasta ári. Ef frá eru dregnir olíuflutningar og flutningar á súráli til álversins í Straumsvík er markaðshlutdeildin um 38%. Vakin er athygli á því að í þessum tölum eru ekki flutningar innan lands, enda liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um stærð markaðarins í sjóflutningum milli hafna hér innan lands.

Tilurð þessarar fyrirspurnar tengist væntanlega umræðum um setningu reglna um að hámarka heildarfiskveiðikvóta einstakra sjávarútvegsfyrirtækja og hefur þá t.d. verið talað um 10%. Benda má á að þetta eru ólík og óskyld mál. Annars vegar er verið að tala um frjálsan markað, flutningamarkað þar sem aðgangur er ótakmarkaður og stjórnvöld hafa ekki sett neinar sérstakar reglur eða kvóta og reksturinn byggist ekki á neinum sérstökum skorti eða varðveislu auðlinda. Ríkisvaldið hefur aftur á móti sett ákveðnar reglur um stjórn fiskveiða og úthlutað þar með aðgangi að auðlindinni. Því má segja að hér sé ólíku saman að jafna.``

Þorkell Sigurlaugsson undirritar bréfið fyrir hönd Eimskipafélags Íslands.

Samskip svara fyrirspurninni svo:

,,Flutningsmagn Samskipa í tonnum árið 1996 hefur verið borið saman við heildarflutninga til og frá Íslandi samkvæmt Hagstofu Íslands og er niðurstaðan eftirfarandi: Innflutningur 6,6%, útflutningur 11,7%, heildarflutningar Samskipa hf. 8,6%. Sigla- Stórflutningar 1,6%, heildarmarkaðshlutdeild samstæðu Samskipa 10,2%. Flutningar Siglu ehf. hafa verið teknir inn í þessa tölu til að gefa heildarmynd af flutningum samstæðu Samskipa hf.``

Undirritað af Halldóru Káradóttur.

Saltskip svarar svo:

,,Það upplýsist hér með að fyrirtækið Saltskip hf. stofnað 27. júlí 1997 er útgerðaraðili Ms. Hvítaness. Áætlaður flutningur á vegum fyrirtækisins með eigin skipi er saltfiskur um það bil 15 þús. tonn og er það eingöngu fiskur sem frá SÍF hf. kemur en taka má fram að áætlaður heildarútflutningur þess fyrirtækis er um það bil 30 þús. tonn á ári. Innflutt salt með Hvítanesi er um það bil 10 þús. tonn á ári og er það salt flutt inn fyrir Saltkaup hf. sem flytur inn að heldarmagni um það bil 40--45 þús. tonn á ári. Annar innflutningur með Hvítanesi er um það bil 2.000 tonn sem er ýmiss konar varningur fyrir hina ýmsu aðila í landinu. Saltskip hf. vildi sjá opnara aðgengi og aðgengilegri upplýsingar hvað varðar flutningataxta hverju sinni frá hinum skipafélögunum.``

Jón Rúnar Halldórsson ritar undir fyrir hönd Saltskips hf.

Nesskip, skipafélag, með leyfi hæstv. forseta:

,,Á árinu 1996 voru eftirtaldir flutningar á vegum Nesskips hf.: Innflutningur 303.900 tonn, útflutningur 204.800 tonn, strandflutningar 616 tonn.``

Bréfið er undirritað af Þorsteini Erni Andréssyni.

Nes hf., skipafélag, svarar svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Strandflutningar: 1996 4.215 tonn, 1995 3.374 tonn og 1994 2.120 tonn.

Útflutningur: 1996 91.582 tonn, 1995 87.802 tonn, 1994 74.457 tonn.

Innflutningur: 1996 35.606 tonn, 1995 29.128 tonn, 1994 31.172 tonn.

Flutningar erlendis: 1996 2.900 tonn, 1995 5.351 tonn,1994 1.890 tonn.``

Pálmi Pálsson skrifar undir fyrir hönd Ness.

Svo mörg voru þau orð. Eins og þessi upplestur ber með sér telja skipafélögin ekki ástæðu til að setja sérstök lög um samkeppni umfram það sem til staðar er í samkeppnislögum, alþjóðareglum skipafélaga og í lögum um samkeppni innan hins Evrópska efnahagssvæðis. Ég er sömu skoðunar. Á þessu sviði á að vera fullkomið frelsi og það er stefna stjórnvalda.