Starfsleyfi atvinnubifreiðastjóra

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:30:32 (2588)

1997-12-18 10:30:32# 122. lþ. 47.3 fundur 273. mál: #A starfsleyfi atvinnubifreiðastjóra# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:30]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Um sendibifreiðastjóra og vörubifreiðastjóra gilda lög um leigubifreiðar, nr. 61/1995, og reglugerð um vörubifreiðar og sendibifreiðar, nr. 121/1990. Í I. kafla laganna eru almenn skilyrði fyrir akstri leigubifreiða, þar sem m.a. kemur fram að allir þeir sem hyggjast aka leigubifreið þurfi að hafa afgreiðslu á bifreiðastöð sem viðurkennd er af viðkomandi sveitarfélagi. Enn fremur eru ákveðin skilyrði sem bifreiðastjóri þarf að uppfylla, þ.e. að hafa óflekkað mannorð, hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu, tilskilin ökuréttindi og fullnægjandi heilbrigðisvottorð. Það er þó ekki skilyrði fyrir akstri sendibifreiðastjóra eða vörubifreiðastjóra að gefin séu út sérstök atvinnuleyfi þeim til handa.

Í reglugerð er kveðið á um fjölda bifreiða á þeim svæðum þar sem takmörkun gildir og enn fremur tekið fram að stéttarfélagið sem í hlut á eigi að gæta þess að ávallt séu bifreiðar á svæðinu í samræmi við fjöldann sem birtur er í reglugerðinni.

Þá er spurt hvort ráðherra telji ástæðu til að sett verði löggjöf eða reglur um starfsemi sendibifreiða og vörubifreiða. Ég álít að nauðsynlegt sé að skýra nánar og skerpa það atvinnuumhverfi sem bæði sendibifreiðastjórar og vörubifreiðastjórar starfa í og það þurfi að fygjast betur með að þau skilyrði sem sett eru fyrir akstrinum séu uppfyllt og eftirlit verði almennt virkara en nú er og tel því mjög brýnt að ný löggjöf verði sett um þessi efni og mun reyna að sjá til þess að undirbúningi hennar verði komið svo vel á veg að hægt verði að leggja frv. fram þegar þing kemur saman að nýju eftir áramót.

Þá er spurt: Mun ráðherra beita sér fyrir því að sett verði á stofn sérstök starfsleyfaskrifstofa sem sjái um úthlutun starfsleyfa og hafi eftirlit með framkvæmd laga nr. 61/1995 og reglna settra samkvæmt þeim? Já, ég tel nauðsynlegt að slík starfsleyfaskrifstofa sé sett á fót. Það hefur verið rætt innan ráðuneytisins hvernig best sé að koma henni fyrir. Það hefur m.a. komið til athugunar hvort skynsamlegt kunni að vera að biðja Vegagerðina að annast það verkefni sérstaklega. Þetta snýr raunar líka að hópferðaakstri og kannski almennt kvörtunum varðandi starfsemi atvinnubifreiðastjóra í hvaða grein sem þeir eru. Ég tel með öðrum orðum að þessi grein eigi fullkominn rétt á sér, sé tímabær og ég mun reyna að sjá til þess og ætla mér að frv. verði lagt fyrir þingið þegar það kemur saman á ný eftir áramót.