Landafundir Íslendinga

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:38:39 (2591)

1997-12-18 10:38:39# 122. lþ. 47.4 fundur 243. mál: #A landafundir Íslendinga# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:38]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það er ljóst að um víða veröld munu menn minnast þess og gera sér daga- og áramun vegna 2.000 ára afmælis okkar tímatals. En það vill þannig til að hjá okkur er eiginlega þríheilagt því að eins og hv. fyrirspyrjandi benti á þá höfum við ástæðu til þess að fagna þeim tímamótum með öðrum í veröldinni, í hinum kristna heimi, og jafnframt 1000 ára afmæli íslenskrar kristni og síðan landafundunum miklu sem við eigum að vera stolt af eins og hv. þm. sagði réttilega.

Við skulum gera okkur grein fyrir því hins vegar að hætt er við að okkar átak geti kafnað nokkuð í öðrum atburðum til að mynda þar vestra. Við verðum því að haga störfum okkar þannig að þau mótist af raunsæi, einbeita okkur að vissum þáttum og tilteknum afmörkuðum stöðum í Bandaríkjunum og í tengslum við minningar landafundanna.

Ríkisstjórnin ákvað í haust að skipa nefnd til þess að undirbúa þessa þætti. Ákveðið var að formaður nefndarinnar skyldi vera Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, og jafnframt var ráðinn sérstakur framkvæmdastjóri átaksins, nefndarinnar, Einar Benediktsson sendiherra, einn allra reyndasti sendimaður Íslands á erlendi grund. Einar hefur þegar unnið allítarleg drög að dagskrá þessarar minningarhátíðar. Hann einbeitir sér þar að þremur svæðum, þ.e. höfuðborginni og við New York á austurströndinni, síðan að Minneapolis og í þriðja lagi svæðinu í kringum Los Angeles.

Ég hygg að skynsamlegt sé að leggja megináherslu á þessa þætti og afmarka verkefnið nokkuð skýrt. Þegar er ljóst að það getur orðið æðikostnaðarsamt fyrir okkur ef þessi starfsemi á að ná nokkru máli og á fjárlögum næsta árs er þegar gert ráð fyrir nokkurri upphæð til undirbúnings starfsins. Þó er ljóst að mjög mikið þarf að fylgja í kjölfarið þannig að þessa verks sjái stað.

Ég er hjartanlega sammála hv. fyrirspyrjanda. Það ber að gera þetta myndarlega og ég tel að þeir sem til hafa verið kallaðir séu líklegir til þess af hálfu ríkisstjórnarinnar að vinna vel að málinu og skipuleggja það vel. Þegar þetta verður lengra fram gengið og áætlanir komnar í ákveðið form er fullkomlega eðlilegt að það verði kynnt ítarlegar í þinginu fyrir þingmönnum.