Gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 10:55:42 (2598)

1997-12-18 10:55:42# 122. lþ. 47.5 fundur 299. mál: #A gjaldskrárbreytingar Pósts og síma hf.# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur

[10:55]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. svörin. Þau eru merkileg fyrir margra hluta sakir. Hér er upplýst að áform hæstv. samgrh. um gífurlegar hækkanir á gjaldskrá Pósts og síma voru ekki kynntar í ríkisstjórn. Það vekur upp aðra spurningu, þ.e. hvort verklagið á ríkisstjórnarheimilinu þurfi ekki að breytast því að bein afskipti hæstv. forsrh. af gjörðum fagráðherra sinna nú í seinni tíð hafa vakið athygli, og hvort ekki sé mikilvægt að mál af þessum toga sé skilyrðislaust færð til umræðu inn á borð ríkisstjórnarinnar fyrir fram þannig að forða megi slysum af þessum toga með almennri umræðu. Það er enginn bragur á því að oddviti ríkisstjórnarinnar skuli ekki hafa vitneskju um, ekki hugmynd um, áform samgrh. um gífurlegar hækkanir á heimilin í landinu.

Þrátt fyrir atbeina hæstv. forsrh. vil ég fullyrða að þegar símareikningarnir birtast landsmönnum nú á næstu vikum, muni hin barnmörgu heimili, heimili aldraðra og heimili almennra launamanna, finna verulega fyrir þeim hækkun sem verða á símareikningum landsmanna.

Því árétta ég fyrirspurn mína til hæstv. forsrh. þess efnis hvort í ljósi reynslunnar sé ekki ástæða til að breyta verklagi á ríkisstjórnarheimilinu og tryggja fyrir fram að slys af þeim toga sem urðu í lok október endurtaki sig ekki þannig að umræðan fari fram áður en ekki á eftir.