Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 11:34:55 (2609)

1997-12-18 11:34:55# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, MF
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[11:34]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skrifa undir nál. frá heilbr.- og trn. með fyrirvara, og tel rétt að gera grein fyrir því hvers vegna sá fyrirvari minn er. Hann er ekki vegna þess að ég sé ekki að fullu sammála því frv. eða áliti sem kemur frá nefndinni. Ég er það og tel að það sé spor í rétta átt að samþykkja hálfs mánaðar fæðingarorlof feðra. Hins vegar kom fram í umfjöllun nefndarinnar að þessi sjálfstæði réttur feðra á almenna vinnumarkaðnum væri mun minni og rýrari en réttur feðra sem vinna hjá hinu opinbera, ekki hvað varðar tímann heldur fyrst og fremst hvað varðar laun. Meðan slík mismunun er í gangi eins og fram kom hjá þeim fulltrúum sem komu á fund nefndarinnar, þá get ég ekki fallist á að um eðlilega mismunun sé að ræða og tel þess vegna rétt að skrifa undir nál. með fyrirvara og vegna þeirrar skoðunar minnar að samræma hefði átt þessar reglur um sjálfstæðan rétt feðra til launa í fæðingarorlofi, milli þess sem gerist hjá hinu opinbera og á almenna vinnumarkaðnum.

Hæstv. ríkisstjórnin samþykkti 16. september sl. sjálfstæðan rétt feðra til launa í fæðingarorlofi og var þá eingöngu um að ræða feður sem vinna hjá hinu opinbera. Í fréttatilkynningu sem kemur frá fjmrn. segir, með leyfi forseta:

,,Á fundi ríkisstjórnar 16. september sl. var tekin ákvörðun um að veita feðrum í starfi hjá ríkinu rétt til launa í fæðingarorlofi. Ákvörðunin var tekin á grundvelli eins af meginmarkmiðum ríkisstjórnarinnar, sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu hennar frá 23. apríl 1995:

,,Að vinna gegn launamisrétti af völdum kynferðis og stuðla að jafnari möguleikum kvenna og karla til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína.````

Í þessu markmiði ríkisstjórnarinnar segir sem sagt að hæstv. ríkisstjórn ætli að vinna gegn launamisrétti af völdum kynferðis, en með þeirri ákvörðun og því frv. sem er hér til umræðu er í raun og veru verið að auka enn á það launamisrétti sem er milli stétta, sem eru jafnvel að vinna sambærileg störf, hjá hinu opinbera og almenna vinnumarkaðnum, og á það er ekki hægt að fallast.

Í minnispunktum sem fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands lögðu fram á fundi í nefndinni kemur þessi mismunun, sem þeir að sjálfsögðu mótmæla, mjög skýrt fram og ég ætla að lesa þá, með leyfi forseta, en þar segir:

,,Fagna ber því að frv. um sjálfstætt fæðingarorlof feðra sé komið fram. Alþýðusambandið styður grundvallarregluna sem þar kemur fram, enda ljóst að Íslendingar standa þjóðum í kringum okkur langt að baki í þessum efnum. Um leið er mikilvægt að benda á eftirfarandi staðreyndir: Frumvarpið kemur fram í kjölfarið á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 16. september 1997, um sjálfstætt fæðingarorlof feðra sem starfa hjá ríkinu. Í tilfelli feðra sem starfa hjá ríkinu er um að ræða mun ríkari rétt, þar sem miðað er við full dagvinnulaun í hálfan mánuð, auk helmings af meðaltalsyfirvinnu og vaktaálagi. Samkvæmt frv. [þ.e. því sem hér er til umræðu] er gert ráð fyrir að hámark greiðslu til feðra á almenna vinnumarkaðnum sé 32.155 kr. fyrir hálfan mánuð. Þess má geta að lágmarkslaun verða samkvæmt kjarasamningum 70 þús. kr. 1. janúar 1998, og að meðallaun karla hjá ríki og borg voru á öðrum ársfjórðungi 1997 um 164 þús. kr. á mánuði og á almennum vinnumarkaði eru þau vel á annað hundrað þúsund á mánuði með öllu. Í ljósi ofanritaðs liggur fyrir að karlar hjá ríkinu munu fá að meðaltali meira en helmingi hærra fæðingarorlof en þeir sem eru á almenna vinnumarkaðnum. Samkvæmt frumvarpinu virðist gert ráð fyrir því að feður á almenna vinnumarkaðnum þurfi að uppfylla strangari formskilyrði en ríkisstarfsmenn, samanber að feður á almenna vinnumarkaðnum verða að vera í hjúskap eða skráðri, óvígðri sambúð eins og stóð í frumvarpinu en samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar hvað varðar rétt opinberra starfsmanna eru engin slík skilyrði varðandi opinbera starfsmenn.``

Síðan spyrja fulltrúar ASÍ: Hver eru hin pólitísku rök fyrir því að mismuna feðrum með þessum hætti eftir atvinnurekanda? Hér er um óásættanlega mismunun að ræða. Áfram segir í þessum minnispunktum, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að réttur foreldra til fæðingar- og foreldraorlofs er mun lakari hér á landi en annars staðar í Norður-Evrópu, bæði hvað varðar tímalengd og greiðslur. Þetta gildir sérstaklega um foreldra á almennum vinnumarkaði, auk þess sem benda má á að kerfið er á margan hátt orðið ósamkvæmt sjálfu sér og ómarkvisst. Þá liggur fyrir að hér á landi ber að taka upp reglur tilskipunar ESB um foreldraorlof í síðasta lagi 3. júní 1998. Þar er gert ráð fyrir sjálfstæðum rétti foreldra, móður og föður, til þriggja mánaða foreldraorlofs til viðbótar við hefðbundið fæðingar- og mæðraorlof. Í þessu ljósi leggur Alþýðusambandið áherslu á að ekki verði lengur búið við óbreytt ástand. Jafnframt er ljóst að frumvarpið nú breytir þar í engu grundvallaratriðum. Þegar á fyrri hluta næsta árs verður að taka upp og aðlaga öll réttindi mæðra og feðra að nútímakröfum og þeim skuldbindingum gagnvart launafólki sem íslensk stjórnvöld hafa tekið á sig með alþjóðlegu samstarfi.``

Jafnframt kom fram hjá fulltrúum frá Jafnréttisráði að mikil nauðsyn væri á að taka heildarlöggjöfina um fæðingarorlofið upp til gagngerrar endurskoðunar vegna þess að mjög margt í þeirri löggjöf rækist hvað á annars horn milli greina þeirrar löggjafar. Því var ekki mótmælt af þeim fulltrúum heilbrrn. sem sátu nefndarfundi.

Í ljósi þessarar mismununar sem kemur fram milli þess réttar sem er fyrir feður á almenna vinnumarkaðnum og þeirra sem starfa hjá hinu opinbera gat ég ekki skrifað undir nál. og þær tillögur sem hér eru fluttar án fyrirvara vegna þess að mér finnst þessi mismunun óásættanleg, og hefði verið eðlilegt og möguleiki á að samræma við afgreiðslu þessa máls svo sem skilyrði um hvort viðkomandi skuli vera í vígðri eða óvígðri sambúð til þess að eiga þennan rétt. Vilji til þess að samræma virðist vera til staðar, og þá kannski frekar í þá veru sem er í frv. hæstv. heilbrrh., vegna þess að samkvæmt þeim upplýsingum sem við fengum er þessi réttur í flestum ef ekki öllum tilvikum skilyrtur við að sá einstaklingur sem réttarins nýtur skuli vera í vígðri eða óvígðri skráðri sambúð. Þess vegna hefði verið eðlilegt að beina því til hæstv. fjmrh. að samhliða þessu hefði sú regla verið tekin upp hvað varðar opinbera starfsmenn.

Þegar ég tala um samræmingu milli þess sem gerist á rétti opinberra starfsmanna og þeirra sem vinna á almenna markaðnum vil ég taka skýrt fram að þar er ég ekki að tala um jöfnun niður á við vegna þess að sá réttur sem menn eiga hjá hinu opinbera og það tillit sem þar er tekið til meðaltalsyfirvinnu og vaktaálags væri eðlilegt að gert væri á sambærilegan hátt á almenna vinnumarkaðnum. Að sjálfsögðu kostar það eitthvað meira því þarna er um að ræða, eftir þeim upplýsingum sem komu fram í nefndinni, að greiðslur til feðra sem eru í starfi hjá hinu opinbera nemi fyrir hálfan mánuð allt að 78 þús. kr., eða þar um bil, plús eða mínus einhverjar stærðir. Aftur á móti er verið að tala um greiðslur upp á 32.155 kr. á almenna vinnumarkaðnum fyrir þennan hálfa mánuð. Þarna munar meira en helming á þessum greiðslum. Þannig erum við hugsanlega að tala um að í staðinn fyrir 100 millj. kr. framlag á fjárlögum til þessa liðar þyrfti það að vera helmingi meira.

[11:45]

Hér liggja frammi tillögur heilbr.- og trn. sem farið var yfir af hv. formanni heilbr.- og trn. áðan, Össuri Skarphéðinssyni, en jafnframt liggur fyrir brtt. við frv. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni sem gengur heldur skemur en sú brtt. sem nefndin flytur varðandi rýmkaðan rétt feðra vegna fjölburafæðinga, alvarlegs sjúkleika barns eða alvarlegra veikinda móður. Ég er, virðulegi forseti, einn af þeim þingmönnum sem gagnrýndu það í störfum nefndarinnar að þessari tillögu hefði verið breytt við 1. umr. og lægi fyrir í störfum nefndarinnar, og er það fyrst og fremst vegna þess að vilji kom fram í máli hv. þm. við 1. umr. til að á því yrði tekið á sambærilegan hátt og gert var við þá breytingu á lögum um fæðingarorlof sem samþykkt var á síðasta þingi. Hæstv. ráðherra tók þessum hugmyndum þingmanna mjög vel og þess vegna fannst mér og finnst eðlilegri vinnubrögð að miða við þá umræðu og viðbrögð hæstv. ráðherra. Það hefði verið eðlilegra að taka málið til umræðu fyrst í nefndinni og sjá hvort hægt væri að ná samkomulagi þar um breytingar. Ef ekki væri hins vegar sú brtt. flutt sem hér er á ferðinni og varðar þetta mál og liggur frammi með skjölum en gengur skemur þannig að hún kemur líklega ekki til atkvæða.

Ég vil að síðustu taka undir þann vilja sem kom fram við 1. umr. um málið, um heildarendurskoðun á lögum um fæðingarorlof og það sjónarmið sem fram kom í nefndinni að þetta væri orðin mjög flókin löggjöf þar sem vafi leikur á um túlkun mjög margra atriða og mismunandi túlkun er uppi. Í þá heildarendurskoðun þarf að fara en þá um leið að taka tillit til þeirrar reglugerðar sem við erum skuldbundin til að lögtaka, ekki síðar en næsta sumar og varðar foreldraorlof. Það hlýtur að þurfa að ræða fæðingar- og foreldraorlof í samhengi og sjálfsagt að að þessari vinnu komi fulltrúar allra þeirra flokka og samtaka sem sæti eiga á hv. Alþingi. Þetta er mál sem mjög breið samstaða þarf að nást um og hefði hæstv. ráðherra átt að vera viðstödd þessa umræðu. Það er alltaf mjög hvimleitt, svo ekki sé meira sagt, að standa í ræðustóli og tala um frv. ráðherra sem hafa fengið mjög fljóta og góða afgreiðslu í nefndinni, þó seint séu fram komin, tekin til 1. umr. nokkrum dögum fyrir jólaleyfi, þrátt fyrir mjög góð áform þingsins um að láta þetta nú ekki gerast aftur og aftur, að frv. sé dreift eða tekin til 1. umr. rétt fyrir þinghlé. En engu að síður hefur heilbr.- og trn. brugðist mjög vel við bæði þessu frv. sem og því frv. sem kom til afgreiðslu nefndarinnar á síðasta þingi, um rýmkaðan rétt hvað varðar fæðingarorlof vegna fjölburafæðinga og væri þá eðlilegt að hæstv. ráðherra sé viðstaddur umræðuna. Það er eins og maður segir, herra forseti, lágmarksvirðing gagnvart vinnu þingmanna og ég tala ekki um þegar brugðist er við beiðini ráðherra með þessu móti.

En þrátt fyrir þann fyrirvara sem ég hef og þrátt fyrir að þarna sé þessi mismunun sem öllum er ljós þurfum við að taka okkur verulega á. Við búum við mun minni rétt hvað varðar fæðingarorlof foreldra en gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við og þó að við förum bara til Norðurlandanna, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands, er Ísland þar langt á eftir hvað varðar þessi réttindi. Í Danmörku eru frá 54 og upp í 69 vikur, í Svíþjóð eru frá 60 upp í 64, frá 44 upp í 46 í Finnlandi og í Noregi 48--52 en við erum aftast í lestinni með 26 vikna orlof. Þetta er nokkuð sem við verðum að taka upp og í ljósi þess vilja sem hefur komið fram hjá hæstv. ríkisstjórn og hjá hæstv. félmrh., sem sett hefur fram og fengið samþykkta tillögu um sérstaka fjölskyldustefnu, væri náttúrlega eðlilegt að heildarendurskoðun fæðingarorlofs og foreldraorlofs væri þegar komin af stað og löngu kominn tími til. En á sama hátt og aðrir fagna ég þó þessu skrefi sem hér er stigið sem er í fullu samræmi við það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson og Steingrímur J. Sigfússon fluttu þáltill. um á síðasta þingi og þinginu þar áður, og fagna því skrefi sem hér er stigið, en geri þennan fyrirvara, að sú mismunun sem er milli atvinnustétta er óásættanleg.