Fæðingarorlof

Fimmtudaginn 18. desember 1997, kl. 11:54:02 (2611)

1997-12-18 11:54:02# 122. lþ. 48.5 fundur 343. mál: #A fæðingarorlof# (feður) frv. 147/1997, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur

[11:54]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. og tilvísunar hennar í 1. umr. um þetta mál vil ég minna á að fyrir þinginu liggur frv. frá okkur kvennalistakonum og fleiri þingmönnum, þar sem gert er ráð fyrir að þessari mismunun, sem kemur fram milli almenna vinnumarkaðarins og ríkisins, sé aflétt á þann hátt að fólk fái greidd full laun í fæðingarorlofi. Mér finnst einnig rétt vegna orða hv. þm. að fram komi að ég er sammála þeirri túlkun að eðlilegt sé að binda rétt fæðingarorlofs feðra við að þeir séu í sambúð. Ég vil líka ítreka að ég tel ekki koma til greina að leiðrétta þann mismun sem er núna milli almenna vinnumarkaðarins og ríkisstarfsmanna með því að samræma niður á við, og því sé langeðlilegasta lausnin að samræma þessar greiðslur t.d. í gegnum svokallaðan fæðingarorlofssjóð, eins og við leggjum til í okkar frv.

Þetta litla frv. sem hér er til umræðu er spor í rétta átt en það er löngu tímabært að taka alla fæðingarorlofslöggjöfina til endurskoðunar.